Lionsgate vinna nú hörðum höndum að því að koma Catching Fire, annarri bókinni í Hunger Games seríunni, á hvíta tjaldið eftir að fyrsta myndin kom sá og sigraði í miðasölunni nú í vor.
Gary Ross (Seabiscuit) leikstýrði sem kunnugt er fyrstu myndinni eftir að hafa barist hart fyrir því að vera valinn í starfið. Eftir gríðarlega velgengni myndarinnar, sem ekki aðeins græddi tonn af peningum heldur fékk einnig nokkuð jákvæða dóma, var fastlega búist við því að hann myndi snúa aftur. Undirbúningur á handriti annarrar myndarinnar var hafinn undir hans leiðsögn, og hann hafði tjáð sig í viðtölum um framtíð seríunnar.
Fyrir stuttu heyrðist að Ross væri ósáttur með þá upphæð sem stúdíóið var tilbúið að bjóða honum fyrir leikstjórn Catching Fire, en engum datt annað í hug en að Lionsgate myndi sjá sóma sinn í því að gefa honum umtalsverða launahækkun fyrir það að hafa skilað inn stærstu mynd fyrirtækisins til þessa. Ekki leið hinsvegar á löngu þangað til fréttir um hið gagnstæða dreifðust um allt internetið. Ross væri farinn, ekki bara vegna lágu launanna, heldur líka vegna þess að með aukinni velgengni sinni hefði hann nú tækifæri á að koma öðrum áhugaverkefnum sínum af stað – auk þess hefði honum hvort eð er þótt fyrsta Hunger Games bókin best. Reyndar bárust svo mótbárur sem sögðu brotthvarf Ross ekki vera víst, hann væri bara í fríi núna og ætti eftir að ákveða sig.
Hvað sem því líður er handritið eftir Simon Beaufoy (Slumdog Millionare) að verða tilbúið, myndin fer í tökur í haust, með eða án Ross, og kemur svo í bíó 22. nóvember 2013. Liam Hemsworth, Josh Hutcherson og síðast en ekki síst Jennifer Lawrence munu öll snúa aftur, en hætta var á því að Lawrence þyrfti að velja á milli hlutverka Katniss og Mystique í X-Men. Fox hefðu meira að segja getað þvingað hana til þess að velja Mystique – hún skrifaði undir samninginn við þá fyrst. En þar sem Cathcing Fire er með tilbúið handrit, var X-Men tökunum frestað fram í janúar svo nú getur hún Jennifer leikið í hvorum tveggja og öll dýrin í skóginum eru vinir.
En hvern vilja lesendur sjá í leikstjórastólnum? Einhvern sem hristir myndavélina aðeins minna – eða voru lesendur bókanna sáttir með Ross?