Forsaga Hungurleikanna í vinnslu – Lawrence sest í leikstjórastólinn

Bandaríski leikstjórinn Francis Lawrence hefur verið ráðinn til að sitja við stjórnvölinn á kvikmyndinni The Ballad of Songbirds and Snakes.

Þarna er um að ræða forsögu að Hungurleikaseríunni frá Suzanne Collins og verður myndin byggð á nýrri bók úr hennar smiðju. Hermt er að Collins muni skrifa handritsaðlögunina ásamt höfundinum Michael Arndt (Little Miss Sunshine, Toy Story 3).

Bókin gerist 64 árum áður en upprisa og bylting Katniss Everdeen á sér stað í landinu Panem og ekki síst stórborginni Capitol. Gerist sögu­þráðurinn í kjöl­far hinna svo­kölluðu myrku daga í Panem, rétt eftir mis­heppnaða upp­reisn.

Í forsögunni er fjallað um Coriolanus Snow, tilvonandi forseta Panem og helsta illmenni seríunnar, og samband hans við fjölskyldu hans sem og óvæntan nemanda. Þarna er Snow 18 ára gamall og segir atburðarásin frá aðkomu hans að tíundu Hungurleikunum.

Snow gerist leiðbandi stúlku sem keppir fyrir hönd allslausa 12. Umdæmisins í Panem, en verkefnið verður erfitt og er útlit fyrir að líkurnar séu gegn þeim á allan veg, enda stuðningur lítill og stúlkan ekki upp á sitt besta.

Ekkert hefur verið opinberað um leikaraval að svo stöddu, en The Ballad of Songbirds and Snakes er enn á forvinnslustiginu hjá Lionsgate. Reiknað er með að ráðning leikara fari í gang þegar COVID-faraldurinn er afstaðinn.

Leikstjórinn Lawrence er annars vegar skrifum og Hungurleikaheiminum vel kunnugur enda stýrði hann þremur af fjórum myndum syrpunnar; Catching Fire og Mockingjay-tvíleiknum. Á ferilskránni hans má einnig finna kvikmyndirnar I Am Legend, Constantine og Red Sparrow með Jennifer Lawrence í aðalhlutverki.

Nei, þau eru ekki skyld.