Hopkins í fötin hans Hitchcocks

Stórleikarinn Anthony Hopkins á nú í viðræðum um að leika hrollvekjumeistarann Alfred Hitchcock, í myndinni Alfred Hitchcock and the Making of Psycho, samkvæmt fréttaveitunni The Hollywood Reporter. Þar er um að ræða kvikmyndagerð bókar eftir Stephen Rebello, en sú bók er byggð á sönnum atburðum.

Sacha Gervasi, sem gerði myndina Anvil! The Story of Anvil, á í viðræðum um að leikstýra myndinni, og Paramount Pictures mun mögulega framleiða.
Bókin sem er frá árinu 1998, segir frá því hvernig Hitchcock á hátindi ferils síns sem leikstjóri, ákveður að búa til „litla“ hryllingsmynd. Ekkert kvikmyndaver vildi koma nálægt verkefninu í byrjun, þannig að Hitchcock skrapaði sjálfur saman peningum til að gera myndina.

Handritið er eftir John McLaughlin, sem var einn af handritshöfundum Black Swan, og er sagan sögð út frá sambandi Hitchcock og eiginkonu hans Alma Reville.

Hopkins er nú aftur nefndur í hlutverkið, en hann hafði fyrir nokkru verið nefndur sem mögulegur kandidat. Það gæti þýtt að samningar séu í þann veginn að nást.