Vildi ekki ógeðslegt hlutverk

Flestir eru líklega sammála um að eitt eftirminnilegasta hlutverk Anthony Hopkins sé hlutverk hans í The Silence of the Lambs sem mannætan Hannibal Lecter.

Í raun réttri þá var Hopkins samt ekki fyrsti kostur í hlutverkið, en hann fékk handritið ekki í hendur til skoðunar fyrr en Sean Connery var búinn að hafna því.

Jonathan Demme, leikstjóri myndarinnar, sem lést nú á dögunum 73 ára að aldri, lét að því liggja í samtali við Deadline vefritið að í raun og veru hafi honum ekki langað að fá Connery í hlutverkið, og hafi verið feginn þegar hann hafnaði því.

„Allir hjá Orion báru mikla virðingu fyrir Hopkins sem leikara,“ sagði Demme. „En  það höfðu margir áhuga á þessu hlutverki, allt frá Dustin Hoffman til Morgan Freeman. Það var gríðarlegur áhugi.

Sean Connery var eini leikarinn annar sem ég hélt að gæti passað vel í hlutverkið. Hann hefur alla þá kosti sem þurfti. Ég elska Hopkins, en Sean Connery hefði getað gert þetta frábærlega.“

 

„Þar sem Connery var mjög heitur á þessum tíma þá sýndum við honum handritið fyrst. Fljótlega þá fengum við þau svör að honum findist það ógeðslegt og gæti ekki hugsað sér að leika hlutverkið. Þar með hugsaði ég, frábært, nú getum við farið með það til Anthony Hopkins.“