Síðustu mánuðir hafa verið afar magrir í bíó, ef litið er á aðsóknartölur. Hér á Íslandi hafa aðeins fjórar myndir komist yfir 20.000 áhorfendur og aðeins ein yfir 25.000 (Klovn: The Movie, sem fór yfir 42.000 manns í upphafi árs), og eins hafa fyrstu fjórir mánuðirnir í Bandaríkjunum verið löng eyðimerkurganga fyrir vongóða framleiðendur, því engin mynd hefur enn komist yfir 120 milljónir í heildartekjur þó kominn sé maí. Er það einsdæmi allan síðasta áratug og eru heildartekjur af bíóaðsókn þar í landi tæpum 20 prósentum lægri en í fyrra, þær lægstu í fimm ár og áhorfendafjöldi sá minnsti í átta ár.
Það breyttist allt um nýliðna helgi.
Á Íslandi kom ofurhetjumyndin Thor í bíó, með öllum þeim látum sem við má búast af Marvel-væddum norrænum guði. Myndin, sem hefur fengið fína dóma, þrátt fyrir smávægilega vankunnáttu á kynjum íslenskra nafna, var frumsýnd síðasta miðvikudag og fékk hvorki meira né minna en 11.828 manns í bíó til sunnudagskvölds. Þar af fóru tæplega 8.500 á hana frá föstudegi til sunnudags. Þetta er að sjálfsögðu það langmesta á árinu og stærsta frumsýningarhelgin á Íslandi síðan Algjör Sveppi og dularfulla hótelherbergið fékk 10.375 manns á fyrstu þremur dögunum sínum í september í fyrra.
Var Thor langt fyrir ofan næstu mynd á lista, teiknimyndina Rio, sem fékk um 2.900 manns um helgina, og myndirnar Hop og The Lincoln Lawyer, sem báðar fóru yfir þúsundið.
Í Bandaríkjunum skildi hasarmyndin Fast Five keppinautana eftir í rykinu, með heilar 83 milljónir dollara í tekjur. Þetta er það langmesta á árinu, og verður myndin líklega komin í efsta sætið yfir stærstu myndir ársins strax um næstu helgi, því hún er einnig að fá mjög góða dóma, líklega þá bestu af nokkurri Fast & Furious-mynd. Hefur Fast Five því brotið flest lögmál um framhaldsmyndir, því hún verður án nokkurs vafa einnig stærsta Fast & Furious-myndin í tekjum talið, þó hún sé sú fimmta í röðinni. Þar í landi var Rio einnig í öðru sæti, með 14,4 milljónir dollara. Neðar á listanum, í fimmta og sjötta sæti, eru svo tvær myndir sem voru frumsýndar, Disney-myndin Prom og teiknimyndin Hoodwinked Too! Hood vs. Evil. Þurftu þær að sætta sig við um 5 milljón dollara hvor.
Fjórða myndin sem var frumsýnd á landsvísu í Bandaríkjunum, Dylan Dog: Dead of Night, skartaði hinni íslensku Anitu Briem í einu aðalhlutverkanna, en það bjargaði henni ekki frá því að vera algert flopp. Hún þurfti að sætta sig við 16. sætið með aðeins 885.000 dollara í tekjur.
Um næstu helgi kemur Fast Five svo til Íslands á meðan Thor verður frumsýnd í Bandaríkjunum. Þá verður áhugavert að sjá hvor verður sterkari þegar þær berjast við hvor aðra um hylli áhorfenda.
-Erlingur