Góðverkið: Batman heimsækir 5 ára aðdáanda

Ég held að best sé að gera fréttir um góðverk kvikmyndamanna að föstum lið, því þá skrifum við vonandi meira um þau. Margt hefur verið um virðingafull góðverk leikara nýlega, eins og þegar Christian Bale heimsótti eftirlifendur og grafir þeirra sem urðu fyrir skotárásinni ógurlegu í júlí, eða þegar Ron Perlman heimsótti ungan langveikan aðdáanda Hellboy í fullbúnu gervi rauða bjargvættarins.

En fréttin að þessu sinni er svipuð þeirri síðarnefndu því 5 ára langveikur aðdáandi Leðurblökumannsins, Jayden Barber, fékk draum sinn uppfylltan þegar Christian Bale bauð snáðanum til Los Angeles ásamt fjölskyldu drengsins í hádegismat. Að sögn fjölskyldunnar skemmtu þau sér konunglega í návist leikarans og sögðu Bale vera æðislegan og jarðbundinn í persónu.

Viðburðurinn varð til í gegnum facebook-síðuna ‘Lighting the Batsignal for Jayen!‘ sem var stofnuð af borgarbúum Youngstown í Ohio til að vekja athygli á löngun Jayden til að hitta eina af hetjum sínum og núverandi Batman, Christian Bale. Hópurinn óx hratt og samanstendur nú af rúmum 30.000 dúllum sem studdu þennan merka draum. En það er nægur fjöldi til að fylla áhorfendastúkurnar í sæmilega stórri amerískri fótboltahöll.

Christian Bale borgaði flug fjölskyldunnar og veitingarnar á Disney Club 33 þar sem hittingurinn fór fram. Besti hlutinn af fregnunum er að Jayden er nú betur á sig kominn og upplifir nú sjúkdómshlé (remission), en pilturinn var upphaflega talinn eiga einungis örfáa mánuði eftir ólifaða.