Góða risaeðlan frumsýnd á föstudag

Teiknimyndin Góða risaeðlan verður frumsýnd föstudaginn 27. nóvember en hún kemur úr smiðju Disney og Pixar. góða risaeðlan

Þetta er sextánda Pixar-myndin í fullri lengd. Þetta er jafnframt í fyrsta skipti sem tvær Pixar-myndir eru frumsýndar á sama árinu því Góða risaeðlan kemur í kjölfar hinnar vinsælu Inside Out sem frumsýnd var í júní.

Í tilkynningu frá Sambíóunum kemur fram að Góða riðsaeðlan sé skemmtileg, fyndin og spennandi. Sannkölluð fjölskylduskemmtun.

Söguþráðurinn er á þann veg að eftir að risaeðlustrákurinn Arlo verður viðskila við föður sinn þarf hann að bjarga sér upp á eigin spýtur í fyrsta skipti. Hann er svo heppinn að fá til þess aðstoð frá litlu frummannabarni sem þrátt fyrir smæð sína og málleysi er óhrætt við að sýna tennurnar og standa á sínu.

Góða risaeðlan verður sýnd bæði með íslensku og ensku tali.

Íslensk talsetning: Grettir Valsson, Aron Máni Tómasson, Þórhallur Sigurðsson, Steinn Ármann Magnússon, Valdimar Flygenring, Egill Ólafsson, Íris Tanja Flygenring, Þórdís Björk Þorfinnsdóttir, Hjálmar Hjálmarsson, Edda Björg Eyjólfsdóttir o. fl.

Þess má geta að í einni af stiklum myndarinnar hljómar lag íslensku hljómsveitarinnar Of Monsters and Men, Crystals, og verður spennandi að sjá hvort það verði líka notað í myndinni sjálfri.