Gary Oldman talar um The Dark Knight Rises

Leikarinn Gary Oldman ræddi nýverið við MTV um væntanlega ævintýramynd sína, Red Riding Hood, en að sjálfsögðu notuðu þeir tækifærið og spurðu hann um The Dark Knight Rises.

Oldman mun snúa aftur sem lögreglustjórinn James Gordon, en leikarinn sagðist ekki enn hafa lesið handritið. Þrátt fyrir það viti hann hvernig sagan verði. „Maður lítur á The Dark Knight og veltir því fyrir sér hvernig Christopher [Nolan] geti toppað sig, en hann mun gera það.“

Oldman staðfesti í leiðinni að The Dark Knight Rises yrði síðasta mynd Nolans í seríunni. „Næsta mynd lokar hringnum. Hún fer með okkur aftur að Batman Begins, og því sem Bruce Wayne uppgötvaði um sjálfan sig í henni.“

Næsta mynd Oldmans, Red Riding Hood, kemur í kvikmyndahús hérlendis 11. apríl, en við fáum ekki að sjá afrakstur hans og Christopher Nolan í The Dark Knight Rises fyrr en í júlí á næsta ári.

– Bjarki Dagur