Bæði þeir Arnold Schwarzenegger og Sylvester Stallone eiga ennþá feril fyrir utan The Expendables myndirnar, og dreifingaraðilar næstu mynda þeirra hafa greinilega ákveðið að minna aðeins á það í tilefni frumsýningar The Expendables 2 um þessar mundir.
Schwarzenegger leikur í myndinni The Last Stand gamlan lögregluforingja frá Los Angeles sem lifir hálfgerðu eftirlaunalífi sem lögreglustjóri smábæjarins Sommertown Junction sem er við landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó. Að sjálfsögðu hitnar í kolunum og þegar mexíkóskur fíkniefnabarónn á leið um bæinn þarf Owens að sýna hvað í honum og litla lögregluliði bæjarins býr. Leikstjóri er Kim Jee-Woon, og í öðrum hlutverkum er fjölbreyttur hópur, óskarsverðlaunahafinn Forrest Whitaker, Jackass-bjálfinn Johnny Knoxville og költgoðið Harry Dean Stanton. Sjáið stikluna hér:
Næsta mynd Stallone heitir hinsvegar Bullet to the Head og fjallar um lögreglumann (Sung Kang, Han í Fast & Furious seríunni) frá New York sem fær leigumorðingja (Stallone) með sér í lið við rannsókn mikilvægs máls sem leiðir þá til New Orleans. Tom Jane var upphaflega ráðinn í hlutverk lögreglumannsins, en var skipt út, þar sem að framleiðendur töldu vanta „meiri lit“ í annað aðalhlutverk myndarinnar. Myndin er fyrsta mynd leikstjórans Walter Hill í áratug, og ætti að sverja sig í ætt við hasarmyndir hans frá 9. áratug síðustu aldar, sem hann er hvað þekktastur fyrir.
Þess má geta að árið 2013 megum við einnig vænta myndarinnar The Tomb, þar sem báðir kapparnir fara með hlutverk fanga í öryggisfangelsi. Ekki hefur enn birst stikla fyrir þá mynd, en hér fyrir neðan má sjá þá félaga í hlutverkum sínum: