Ég hef venjulega ofsalega gaman af ránsmyndum, ekki síður þegar þær eru hnyttnar, skarpar og skemmtilegar. Það virðist vera að því lengra sem líður frá því að Ocean’s-þríleikurinn var gerður, því meira fer maður að sakna hans. Ekki endilega vegna þess að þetta eru einhverjar snilldarmyndir (mig rámar meira segja í það að miðjumyndin hafi verið upp og niður), heldur vegna þess að ekkert jafn stílískt og fjörugt hefur sést koma frá amerískum markaði síðan. Ég er alls ekki að segja að við höfum ekki séð góða ránsmynd síðan þessar myndir voru gerðar, en allavega hvað gamanmyndir varðar hefur úrvalið verið steindautt og Tower Heist er engin undantekning.
Ef þið viljið sjá annars flokks útgáfu af Ocean’s-mynd (11 eða 13, þið ráðið) með auðgleymdari persónum, engri spennu, færri bröndurum og miklu langsóttara plotti þá stenst þessi mynd kröfurnar með látum og meira til. Hún er svo sem lítið annað en meinlaus afþreyingarmynd sem reynir að finna eitthvað að gera fyrir alla þekktu leikarana á skjánum, en á hinn bóginn reynir hún einnig að vera sleip, fyndin og óvænt. Ég skal gefa henni það að henni tekst að halda flæðinu án þess að drepa mann úr leiðindum en hvað helstu markmiðin varðar missir hún alveg marks. Skekkt tímasetning brandaranna gerir það að verkum að maður situr yfir vandræðalegum augnablikum þar sem leikarar reyna að vera fyndnir en leggja ekkert alltof mikið á sig. Þeir eru bara hér til staðar til þess að græða, enda er það ekki skrítið þegar um Brett Ratner-mynd er að ræða.
Ratner kann að vinna fyrir kaupinu sínu og oft hefur hann áhuga á því sem hann gerir. Að vísu gerir hann lítið til þess að betrumbæta handritin sem hann fær. Sem betur fer á hann ekki margar slæmar myndir að baki, en langflestar eru svo gott sem hörmulegar því þær eru svo óspennandi og dæmigerðar að maður nennir aldrei að leggja í það að horfa á þær aftur. Ratner hefur gert örfáar fínar eða góðar myndir en hver þeirra hefði getað verið miklu betri hefði einhver annar hæfileikaríkari einstaklingur gert þær. Tower Heist á margt sameiginlegt með ránsmyndinni sem hann gerði árið 2004 sem var hin auðgleymda After the Sunset (eina sem stóð upp úr var Salma Hayek, sem var fáklædd í öllum senum). Báðar myndirnar eru ágætlega skotnar með fínu fólki í forgunninum en efnislega álíka spennanndi fyrir minn smekk og ef ég væri blindur maður að dæma blautbolakeppni.
Það er lítið hægt að segja um leikarana. Ben Stiller er bara alveg eins og hann er þegar hann leikur í Hollywood-myndum sem fjalla ekki bara um hann. Eddie Murphy heldur áfram að taka að sér handrit sem bestu grínistarnir hafna og restin af hópnum gerir ekki mikið annað en að poppa upp með skilaboðunum: „Sjáðu, ég er líka í þessari mynd!“ Michael Peña og Casey Affleck eru nú fínir. Matthew Broderick virðist þó alveg vera áttavilltur, eins og hann hafi gengið inn í ranga sviðsmynd og bara látið sig hafa það.
En já, Tower Heist er ekki bara bullandi miðjumoð heldur tákn miðjumoðs, alveg eins og leikstjórinn. Myndin þykist vera klók en satt að segja gat ég í langflestum tilfellum reiknað út eða ímyndað mér hvert söguþráðurinn stefndi. Allir sem þekkja hefðbundnar handritsreglur ættu að geta sagt það sama og það verður aldrei meira augljóst en þegar handahófskenndar útskýringar eða ábendingar koma upp úr þurru (t.d. skákin, bíllinn …). Það þýðir bara að verið séð að byggja eitthvað upp.
Látið þessa mynd helst í friði, nema þið séuð stödd í lokuðum sumarbústað í óveðri og engin önnur mynd í boði.
(5/10)
Hvernig fannst þér Tower Heist?