Fyrsta Guardians of the Galaxy Vol. 2 kitla og plakat

Fyrsta kitlan úr Marvel ofurhetjumyndinni Guardians of the Galaxy Vol. 2 er loksins komin út, en margir hafa beðið spenntir eftir að sjá framhald á ævintýrum ofurhetjuhópsins Útvarða alheimsins, enda var síðasta mynd óvæntur og bráðskemmtilegur stórsmellur árið 2014.

guardians

James Gunn, leikstjóri myndarinnar, kallar kitluna forskoðun „Sneak Peak“ og lofar stiklu í fullri lengd innan skamms.

Kitlan er 1.29 mínútur að lengd. Hún er reyndar ekki það allra fyrsta sem sést úr myndinni þar sem gestir Comic-Con afþreyingarhátíðarinnar í San Diego í Kaliforníu voru fyrstir til að sjá efni úr myndinni í sumar. Í því broti sást þegar Yondu og Rocket Raccoon flúðu úr fangelsi með hjálp Baby Groot. Í kjölfarið sáu menn sýnishorn þar sem lag Fleetwood Mac, The Chain hljómaði yfir, og hetjurnar réðust á veru úr öðru tilverustigi.

Comic-Con efnið var ekki gert aðgengilegt á netinu eftir hátíðina, þar sem ekki var búið að fullvinna tæknibrellurnar á þeim tíma.

Flestir leikarar úr fyrri myndinni snúa aftur í mynd númer tvö, þar á meðal Chris Pratt sem Star Lord, Zoe Saldana sem Gamora, Dave Bautista sem Drax, Vin Diesel sem rödd Groot og Bradley Cooper sem rödd Rocket.

Nýir leikarar hafa einnig bæst í hópinnn, þar á meðal þau Sylvester Stallone, Kurt Russell ( leikur föður Star Lord ) og Elizabeth Debicki.

Guardians of the Galaxy Vol. 2 kemur í bíó 28. apríl, 2017.

Sjáðu kitluna hér fyrir neðan og fyrsta plakatið þar fyrir neðan:

guardians-poster