Frík í boði Páls Óskars

Poppstjarnan og kvikmyndaáhugamaðurinn Páll Óskar Hjálmtýsson mun halda sérstakt Tod Browning kvöld á næsta sunnudag, þann 25. nóvember nk. í Bíó Paradís.

Sýningin er hluti af kvikmyndaklúbbnum Svartir sunnudagar, en að því er fram kemur í tilkynningu frá Bíó Paradís þá hafa Svartir sunnudagar í Bíó Paradís slegið í gegn og aðsóknin verið framar öllum vonum. Aðstandendur Svartra sunnudaga eru Hugleikur Dagsson, Sjón og Sigurjón Kjartansson. 

Ted Browning kvöld Páls Óskars samanstendur af myndum úr 8 millimetra filmusafni Páls, en þar standa uppúr 17 mínútna útgáfa af Dracula frá 1931 og svo hin umdeilda og marg-bannaða Freaks sem sýnd verður í fullri lengd, að því er segir í tilkynningunni frá bíóinu.

„Páll mun einnig halda smá tölu um hinn rómaða meistara Tod Browning sem var gerður útlægur úr Hollywood eftir að hann gerði hina umdeildu Freaks, sem fjallar um líf og ástir fólks sem starfar í sirkus.“