Mann-drengur á Svörtum sunnudegi

Kvikmyndaklúbburinn Svartir sunnudagar í Bíó Paradís við Hverfisgötu í Reykjavík heldur ótrauður áfram eftir að Forboðinn febrúar hefur nú runnið sitt skeið, en febrúarmánuður var helgaður mörgum óhugnanlegustu og bönnuðustu myndum í heimi m.a.

Nú á sunnudaginn verður boðið upp á mynd sem er af ögn léttara tagi, Pee-Wee’s Big Adventure.

„Eftir frábæra aðsókn á hinar óhugnanlegu kvikmyndir sem sýndar voru á Forboðnum febrúar ætla Svartir sunnudagar að heilsa marsmánuði með drengslegu sakleysi hins glaðværa Pee Wee Herman,“ segir í frétt frá Svörtum sunnudögum.

Sjáðu stikluna fyrir Pee-Wee´s Big Adventure hér fyrir neðan:

„Pee-Wee’s Big Adventure er gerð árið 1985 og er fyrsta myndin í fullri lengd sem Tim Burton leikstýrði. Sá átti nú heldur betur eftir að sigra heiminn en í Pee-Wee’s Big Adventure má strax sjá höfundareinkenni meistarans. Og ekki má gleyma frábærri tónlist Danny Elfman, en þessi mynd var jafnframt frumraun hans.“

Myndin segir frá hinum sérvitringslega mann-dreng, Pee Wee Herman, sem býr í afar skrautlegu húsi og er nýbúinn að fá sér ansi glæsilegt hjól sem hann elskar meira en nokkuð annað. Þegar hjólinu er stolið fyllist Pee Wee réttlátri reiði og eirir engu fyrr en honum hefur tekist að hafa uppá hjólinu. En í leit sinni þarf leggjast í langt ferðalag.

„Myndin er byggð á sjónvarpspersónu sem leikarinn og höfundurinn Paul Reubens skóp í upphafi níunda áratugsins sem átti miklum vinsældum að fagna í barnatíma CBS sjónvarpsstöðvarinnar. En húmorinn höfðaði líka mjög til fullorðinna og varð karakterinn vinsæll í miðnæturþáttum eins og Saturday Night Live og í þætti David Letterman.

Frægðarsól Pee Wee Herman settist þó eftirminnilega árið 1991, þegar Paul Reubens var handtekinn í klámmyndabíói við miður sæmilega iðju. Hann hefur þó í seinni tíð endurvakið Pee Wee, nú síðast fyrir um tveim árum síðan þegar sýning hans Pee Wee’s Playhouse var sett upp á Broadway við miklar vinsældir.

Pee-Wee’s Big Adventure hefur í dag öðlast mikinn költ status og ber leikstjóra sínum og höfundum fagurt vitni, enda frábær skemmtun á ferð. Myndin er öllum leyfð, en ætlast til að börn komi í fylgd með foreldrum og að þeir séu þá búnir með heimanámið. Það hefði Pee Wee viljað. Enskt tal. Enginn texti. Krakkar kunna ensku.“

Svartir sunnudagar láta ávallt sérhanna plakat fyrir hverja mynd sem sýnd er í klúbbnum, en hver mynd er aðeins sýnd einu sinni.

Höfundur plakatsins fyrir Pee Wee´s Big Adventure er Ísak Óli.

Sjáðu plakatið hér fyrir neðan:

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Sýning myndarinnar hefst kl. 20 á næsta sunnudag, þann 3. mars.