Miðill myrtur í Bíó Paradís – Páll Óskar með plakatið

Ítalska hrollvekjan Deep Red (Profondo Rosso) verður sýnd í kvikmyndaklúbbnum Svörtum sunnudögum í Bíó paradís á sunnudaginn næsta kl. 20.

Svartir sunnudagar einbeita sér að költ bíómyndum og sýna hverja mynd aðeins einu sinni.

Deep Red var frumsýnd árið 1975 og samkvæmt upplýsingum frá Bíó Paradís þá er myndin í dag sögð ein mikilvægasta myndin meðal hinna ítölsku Giallo mynda sem gerðar voru á áttunda og níunda áratugnum.

Sjáðu stikluna úr myndinni hér að neðan:

„Leikstjóri myndarinnar er sjálfur Dario Argento en hann kom hingað til lands síðastliðið haust sem heiðursgestur RIFF. Þá voru sýndar þrjár myndir eftir hann en Deep Red var ekki þar á meðal. Það er því kærkomið að Svartir sunnudagar sjái um þá hlið mála. Þetta er að því vitað er í fyrsta sinn sem þessi magnaða kvikmynd er sýnd í Reykvísku bíói.“

Myndin segir frá tónlistarkennara sem verður vitni af því að kona er myrt. Hann reynir að bjarga henni en án árangurs. Þegar hann fer að reyna að grafast fyrir um málið kemst hann að því að konan var miðill og ýmislegt dularfullt fer að koma í ljós.

Deep Red fékk frábæra dóma og er í dag talin vera grundvallaverk meistara Argentos.

Svartir sunnudagar láta ávallt sérhanna plakat fyrir hverja mynd sem sýnd er í klúbbnum og að þessu sinni var það poppstjarnan Páll Óskar Hjálmtýsson sem hannaði plakatið.

Sjáið plakatið hér að neðan: