Fassbender sigrar í feneyjum

Hinn þýsk ættaði leikarinn Michael Fassbender er á rjúkandi uppleið frá og með þessu ári. Gagnrýnendur og áhorfendur voru yfir sig ánægðir frammistöðu hans í X-Men: First Class fyrr á þessu ári og hefur sjaldan verið eins mikið að gera hjá honum og þessa dagana. Á næsta ári fáum við að sjá hann í nýjustu mynd Ridleys Scott, Prometheus, og á næstu mánuðum koma út myndirnar A Dangerous Method (eftir David Cronenberg) og Shame, leikstýrð af nokkrum Steven McQueen (Hunger – sem skartaði einnig Fassbender í aðalhlutverki). Nú á dögunum fékk hann einmitt verðlaun fyrir leik sinn í Shame á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum.

Í myndinni leikur Fassbender kynlífsfíkil sem lifir heldur betur skrautlegu lífi og fer allt á annan endann þegar litla systir hans flytur inn með honum. Carey Mulligan, sem fékk Óskarstilnefningu fyrir An Education, leikur systur Fassbenders. Shame fékk frábærar viðtökur á kvikmyndahátíðinni og sömuleiðis mikið umtal. Eins og stendur er myndin með NC-17 aldursstimpilinn í Bandaríkjunum (þ.e. stranglega bönnuð innan 17 ára) vegna grófra kynlífsatriða svo eitthvað sé nefnt. Kvikmyndafyrirtækið Fox Searchlight tryggði sér nýlega dreifingarréttinn á myndinni og er reiknað með því að hún lendi á Íslandi einhvern tímann í kringum næsta haust.