Er G.I. Joe í ruglinu?

Þegar kom fyrst í ljós að G.I. Joe: Retaliation hefur verið færð um 9 mánuði héldu flestir að Paramount og Hasbro voru í sameiningu að grilla í fjölmiðlum. Myndin átti að koma út eftir tæpan mánuð áður en dagsetningin breyttist í 29. mars á næsta ári. Allt kynningarefni komið í gang í kvikmyndahúsum (stiklur, plaköt, pappastandar) og er alls ekki reiknað með öðru en að stúdíóið hafi hingað til dælt góðum aur í auglýsingakostnaðinn. Ásamt Madagascar 3 var þetta dýrasta Paramount-myndin í sumar.

Auglýsingarherferðin hefur verið nokkuð áberandi og kostnaðarsöm, og upp úr þessu virðast rándýru kaupin á Super Bowl auglýsingarplássi fyrr á árinu hafa verið nokkuð tilgangslaus. Það er mjög slæmt, vegna þess að eftir hálft ár eða svo þarf að koma allri kynningarherferðinni í gang aftur frá byrjunarreit – og markaðsteymi myndarinnar verður nú bara rétt að vona það að fólk verður ekki orðið löngu þreytt á sýnishornunum þá.

Stórmyndir hafa oft verið færðar, en þetta er alveg einstakt dæmi. Fyrst var gefið upp að ástæðan fyrir seinkuninni hafi verið sú að aðstandendur vildu helst bíða með myndina svo hægt væri að nýta tímann í 3D eftirvinnslu. Einnig kom upp sú umræða að Hasbro hafi haldið að Battleship-myndin þeirra floppaði vestanhafs vegna þess að hún var ekki sýnd í þrívídd, og þeir vildu ekki hætta á að sama myndi gerast með þetta vörumerki. Þótt aðdáendur séu pínu forvitnir að sjá þessa nýju G.I. Joe-mynd er erfitt að segja að fólk sé eitthvað deyjandi úr spenningi. Fyrri myndin, The Rise of Cobra, fékk ekki beinlínis hlýjar viðtökur á sínum tíma.

Bíóbloggarar og fréttamenn víða um heiminn telja að það sé einfaldlega verið að fela einfaldan sannleikann, og ef eitthvað er að marka orðið á götunni (og heimsþekkta hlaðvarpið á vefsíðunni Slashfilm, svo eitthvað sé nefnt) er meira á bakvið þá ákvörðun að breyta dagsetningunni. Sagt er að framleiðendur hafi misst gjörsamlega vitið úr áhyggjum eftir hræðilegar viðtökur á svokölluðum prufusýningum sem haldnar voru fyrir stuttu. Þar var smalað ýmsum hlutlausum áhorfendum til að meta myndina og voru margir á þeirri skoðun að hún væri lítið skárri en forveri sinn. Ætli Paramount sé að fá endurlit frá The Last Airbender?

Þetta eru samt bara orðrómar, en þeir þykja mjög trúverðugir eftir að Dwayne Johnson lýsti yfir því á Twitter-síðunni sinni að teknar verða upp nýjar senur fyrir myndina. Hann minntist auðvitað ekkert á viðtökurnar eða prufusýningar, en hann sagði að nýju senurnar verða teknar upp með tilliti til nýju 3D-útgáfunnar.

Enn og aftur vakna sömu spurningarnar, og nokkrar nýjar:
Er sniðugt að breyta mynd í þrívídd sem var aldrei áður gerð með tilliti til þess?
Ef myndin er vond, mun það hjálpa henni að dæla endalaust peningum í hana? Hvort sem það eru nýjar tökur eða auglýsingar.
Er ráðlagt að bæta við nýjum atriðum bara svo þrívíddin njóti sín betur?
Á maður bara að hundsa þetta og vona það besta?

 

Vertu með í umræðunni. Hvað segir þú?