Cooper vill blóð á tennurnar

Breski leikarinn Dominic Cooper, sem margir muna eftir úr Abraham Lincoln: Vampire Hunter og Abba söngvamyndinni Mamma Mia, á í viðræðum um að leika í nýrri mynd um blóðsuguna Drakúla greifa.

Samkvæmt kvikmyndaritinu Variety stendur Cooper til boða að leika sjálfan Drakúla, en Cooper lék einnig blóðsugu í Abraham Lincoln: Vampire Hunter.

Luke Evans, sem hefur einnig verið ráðinn til að leika í endurgerðinni af The Crow, leikur aðalkarlhlutverkið í myndinni, en aðalkvenhlutverkið er í höndum Sarah Gadon. Leikstjóri er Gary Shore.

Drakúla verður blanda af goðsögulegum og sögulegum tilvísunum, og fjallar um Prins Vlad, sem var fyrirmynd rithöfundarins Bram Stoker fyrir skáldsöguna um Drakúla greifa.

Frumsýning myndarinnar er áætluð 8. ágúst, 2014.

Cooper sást síðast á hvíta tjaldinu í Dead Man Down og næsta mynd hans er tölvuleikjamyndin Need for Speed.