Calvin Klein módel verður Grey í 50 Shades of Grey

Norður írski leikarinn Jamie Dornan hefur verið fenginn til að leika hlutverk viðskiptajöfursins Christian Grey í myndinni Fifty Shades of Grey. Dornan leysir þar með af hólmi leikarann Charlie Hunnam, en hann hætti nýverið við að leika í myndinni sökum anna við leik í sjónvarpsþættinum Sons of Anarchy.

dornan

Dornan er þekktur fyrir að leika lögreglustjórann Graham Humbert í ABC sjónvarpsþáttunum Once Upon a Time. Hann lék einnig fjöldamorðingja í sjónvarpsmynd í tveimur þáttum á BBC, The Fall, auk þess sem hann kom fram í kvikmynd Sofia Coppola Marie Antoinette.

Leikarinn, sem er 31 árs gamall, er í írskri þjóðlagasveit, og hefur unnið sem fyrirsæta fyrir Calvin Klein, Christian Dior og Armani. Eins og segir í frétt Variety kvikmyndaritsins þá gæti sú reynsla nýst honum vel þar sem hlutverkið krefst þess að hann þarf að leika í mörgum kynlífssenum, enda fjallar myndin um kynóðan mann sem á í sambandi við unga konu.

Dakota Johnson leikur konuna, Anastasia Steele, og Sam Taylor-Johnson leikstýrir.

Universal kvikmyndaverið vinnur nú hörðum höndum að ráðningu annarra leikara, þar á meðal í hlutverk herbergisfélaga Steele, Kate.

Metsölubókin sem myndin er gerð eftir, Fifty Shades of Grey, er skrifuð af E.L. James, og hefur verið kölluð mömmuklám, vegna kynlífslýsinga í bókinni.

Frumsýning myndarinnar verður 1. ágúst 2014.