Cage í Jiu Jitsu geimverubardaga

Þeir eru margir hér á landi og erlendis sem hreinlega fá aldrei nóg af Óskarsverðlaunaleikaranum Nicolas Cage. Þó svo að gæði myndanna hin síðari ár hafi verið í lakari kantinum margar hverjar, þá koma inn á milli gullmolar, eins og í Mandy og Óskarsverðlaunaða teiknimyndin Spider-Man: Into the Spiderverse, þar sem Cage talaði fyrir svarta Spider-man, eða Spider-Man Noir, eins og hann heitir á frummálinu.

Og nú gæti verið von á öðru meistarastykki frá leikaranum, þar sem sagan segir að hann hafi gengið til liðs við slagsmála – og geimveruinnrásarmyndina Jiu Jitsu, eftir Dimitri Logothetis.

Söguþráður myndarinnar er á þessa leið:

Á sex ára fresti þá stendur lítill og ævaforn Jiu Jitsu slagsmálaher frammi fyrir hræðilegum geimverum, sem vilja leggja undir sig Jörðina. Í þúsund ár hafa þessir bardagamenn sem vernda Jörðina, farið eftir leikreglunum … þar til nú. Þegar Jake Barnes, sem er margverðlaunuð stríðshetja og meistari í Jiu Jitsu bardagalistum, neitar að etja kappi við Brax, leiðtoga innrásarhersins, þá er framtíð Jarðarinnar í hættu. Særður og minnislaus, þá er Jake fangaður af herdeild, sem er ekki búin undir að mæta innrásarhernum. Eftir hrottalega geimveruárás á herdeildina, þá bjargar Wylie, sem okkar maður Cage leikur, Jake, á síðustu stundu, og hópur Jiu Jitsu bardagamanna þarf nú að hjálpa honum að endurheimta minnið, og fá aftur styrk, til að kalla saman liðið, og sigra Brax í sögulegu stríði, sem mun enn á ný ákvarða um framtíð Jarðarinnar.

Hlutverk Cage í myndinni er stórt, en annar aðalleikari er Alani Moussi, sem er leikari, áhættuleikari og meistari í bardagalistum. Fyrir þá sem ekki þekkja kappann þá lék hann í tveimur síðustu endurræstu Kickboxermyndum annars slagsmálahunds, Jean-Claude Van Damme.

Leikstjórinn Dimitri Logothetis hafði þetta að segja um málið á MovieWeb vefsíðunni:

„Eftir velgengnina með Kickboxer endurræsinguna, þar sem við kynntum seríuna fyrir nýrri kynslóð aðdáenda sjálfsvarnarlista, þá bætum við um betur og kryddum þetta með smá vísindaskáldskap.“

Myndin er byggð á samnefndum teiknimyndasögum eftir þá Logothetis og Jim McGrath. Auk þess að semja teiknimyndasöguna, og leikstýra þessari mynd, þá er Dimitri Logothetis líka að skrifa handrit Jiu Jitsu.

Enginn frumsýningardagur hefur verið ákveðinn enn, en vonandi ratar þessi mynd hingað í fásinnið.