Orlando Bloom, 42 ára, einn af aðalleikurunum í bíómyndaseríunum Lord of the Rings og Pirates of the Caribbean, er genginn til liðs við Amazon stórfyrirtækið, til að leika þar í ævintýraþáttunum Carnival Row. En þótt að Bloom leiki þar venjulegan mann, þá er fortíð hans sem álfur enn mönnum mjög hugleikin.
Á kynningarferðalagi Television Critics Association fyrir Carnival Row, þá spurði einn blaðamaður leikarann hvort að hann hefði áhuga á að snúa aftur til Lord of the Rings heimsins, í nýrri þáttaröð sem Amazon er með á prjónunum.
„Það er fyndið, því ég man þegar ég var á tökustað með Peter [ Jackson ], fyrir, hva, 20 árum síðan?“ sagði Bloom, og hélt svo áfram: „Hann sagði, „væri ekki fyndið ef fólk myndi endurgera Lord of the Rings ?“ Þetta var mitt í tökunum, og ég sagði, að það myndi aldrei verða.“
En þetta er einmitt svipað því og er í vinnslu núna hjá Amazon, en ný Lord of the Rings þáttaröð Amazon verður forsaga að þríleiknum, og gerist á öðru tímabilinu ( Second Age ), sem nær yfir þrjú þúsund ár. Ekki er þó alveg víst nákvæmlega hvenær þáttaröðin á að gerast. „Ég veit ekki hvernig þau ætla að nálgast þetta,“ sagði Bloom, og staðfesti að engar nánari upplýsingar væri að fá frá Amazon ennþá.
Bloom hefur áður snúið aftur í gervi álfsins Legolas. Eftir að hafa leikið hann í upprunalega þríleiknum, The Fellowship of the Ring, The Two Towers og The Return of the King, þá lék hann álfinn í báðum Hobbitamyndunum.
Ekki langlífur eins og álfar
En það verður að mati Bloom sífellt erfiðara að bregða sér í hlutverkið. Þó að Legolas sé af langlífri ætt, þá á ekki það sama við um Bloom sjálfan, sem eldist nú með hverjum deginum.
„Mér finnst ég hafa gert allt [ sem ég get ]. Ég vil líta á mig sem aldurslausan, en ég veit ekki hvar ég passa inn í myndina,“ sagði hann.
Ef Amazon vill nota persónuna Legolas að nýju, þá ráðleggur Bloom þeim að finna nýjan leikara í hlutverkið, „mögulega 19 ára gamlan strák.“
Nú er það rannsóknarlögreglumaðurinn Rycroft „Philo“ Philostrate, sem á hug leikarans allan, í Carnival Row, ævintýraseríunni, sem gerist á Viktoríutímanum, þegar álfaþjóðin hefur flúið undan ofbeldi og ofríki inn í heim mannfólksins. Með honum leikur aðalhlutverk Cara Delevingne, sem leikur álfkonuna Vignette Stonemoss.
Hér fyrir neðan er kitla úr þáttunum:
Carnival Row verður frumsýnd 30. ágúst nk. á Amazon Prime Video. Lord of the Rings forsagan er enn ekki komin með frumsýningardag.