Nýr Jack Reacher ráðinn

Aðdáendur bóka Lee Child um Jack Reacher, tröllvaxna hermanninn fyrrverandi, geta glaðst yfir því að von er á sjónvarpsseríu um manninn án nokkurrar aðkomu frá Tom Cruise. 

Það er Amazon Prime sem framleiðir þættina og hefur bandaríski leikarinn Alan Ritchson verið ráðinn í aðalhlutverkið. Hann hefur farið yfir víðan völl með þekktar fígúrur og þekkja hann margir sem Aquaman í Smallville-þáttunum, Hawk í Titans eða Raphael í nýju TMNT-myndunum. 

Jack Reacher er lýst í bókum Child sem hávöxnum manni, 196 sm á hæð. Persónan er mikil drápsvél og flakkar um Bandaríkin farangurslaus. Þættirnir frá Amazon munu ekki með neinu móti tengjast bíómyndum Cruise (sem þótti heldur umdeildur í hlutverkinu – sjá ofannefndu hæð) og verður áhersla lögð á nýja aðlögun á bókum Child. 

Má þess geta að bækur hennar um Reacher eru orðnar 24 talsins en fyrsta þáttaröð seríunnar verður byggð á fyrstu skáldsögunni, The Killing Floor, sem seldist í fleiri en 100 þúsund eintökum um allan heim.