Blanchett með Bradley í nýrri mynd Del Toro

Bradley Cooper virðist vera að fá frábæran nýjan meðleikara í nýjustu mynd leikstjórans Guillermo del Toro, Nightmare Alley. Þar er á ferðinni engin önnur en ástralska leikkonan Cate Blanchett.

Cate Blanchett sem Hela í Thor: Ragnarok

Blanchett, sem er tvöfaldur Óskarsverðlaunahafi ( Blue Jasmine og Aviator ), á nú í viðræðum um að leika ásamt A Star is Born stjörnunni, í fyrrnefndri kvikmynd sem byggð er á samnefndri skáldsögu William Lindsay Gresham frá árinu 1946. Frá þessu segir í Entertainment Weekly.

Cooper hreppti hlutverkið í myndinni eftir að önnur stórstjarna, Leonardo DiCaprio, hafði hnusað af því í nokkurn tíma, án þess að taka það að sér.

Myndin er fyrsta myndin sem Del Toro gerir eftir að hann hlaut Óskarsverðlaunin fyrir The Shape of Water árið 2018.

Nightmare Alley, eða Martraðarsund í lauslegri snörun yfir á ástkæra ylhýra málið, hefur áður verið kvikmynduð. Það var árið 1947 með stórleikaranum Tyrone Power. Sagan segir af starfsmanni í tívolí, sem gerist bragðarefur. Þá gerist það að konan, sem er samverkamaður hans í brellunum, snýr við honum baki.

Del Toro, sem hefur verið iðinn við kolann í framleiðslu bíómynda upp á síðkastið, og má þar nefna myndina Scary Storeis to Tell in the Dark, sem er að detta í bíó hér á landi í næstu viku, og Pacific Rim: Uprising, skrifaði handritið að nýju myndinni ásamt Kim Morgan.

Áætlað er að tökur hefjist snemma árs 2020.

Hvað Blanchett varðar þá sást hún nýlega í Thor Ragnarok, þar sem hún lék þorpara, ásamt því að vera þjófur í Ocean´s 8, norn í The House with a Clock in Its Walls, og rödd snáksins Kaa í Mowgli: Legend of the Jungle.

Næsta verkefni leikkonunnar er hlutverk Bernadette Fox í Where´d You Go, Bernadette, sem kemur í bíó í ágúst.