Avatar enn og aftur á toppnum!

Þetta er opinberlega orðið rugl. Avatar gjörsamlega rústaði samkeppninni í Bandaríkjunum um helgina… fimmtu helgina í röð! Eftir mánuð af áður óheyrðri metaðsókn er sci-fi fantasía um þriggja metra háar bláar náttúruverndargeimverur farin að ógna áður ósnertanlegu tekjumeti Titanic, bæði í Bandaríkjunum og á heimsvísu, þar sem spurningin er ekki lengur hvort heldur hvenær hún verður tekjuhæsta mynd allra tíma.

Í Bandaríkjunum hélt hún toppsætinu fimmtu vikuna í röð, þar sem nýja spennumyndin hans Denzel Washington, heimsendamyndin The Book of Eli, náði ekki að slá Avatar við þrátt fyrir aðsókn umfram væntingar.

Aðalástæðan er sú að aðsókn á Avatar er ekkert að minnka að ráði milli helga. Venjuleg afföll á aðsókn á stórmyndir í Bandaríkjunum er 30-60% milli helga, en hins vegar náði Avatar 41 milljón dollara í kassann nú um helgina, eða meira en helmingnum af því sem hún tók inn á frumsýningarhelginni sinni! Afföll síðan um síðustu helgi eru rétt um 18 prósent, sem þýðir að hún á ennþá nóg inni.

Því dugðu 32 milljónirnar sem The Book of Eli tók inn ekki til að ná toppsætinu. Í þriðja sæti var svo The Lovely Bones, nýjasta mynd Peter Jackson, sem hafði mallað í örfáum bíóum síðan snemma í desember, en var nú frumsýnd á landsvísu vestra.

The Spy Next Door, myndin þar sem Magnús Scheving leikur rússneskt illmenni sem reynir að lumbra á barnfóstrunni Jackie Chan, olli nokkrum vonbrigðum, en hún náði aðeins 6. sætinu með tæpar 10 milljónir dollara.

Um næstu helgi á að frumsýna þrjár nýjar myndir á landsvísu í Bandaríkjunum, Tooth Fairy, Legionog Extraordinary Measures, en það kæmi ekki á óvart ef Avatar slægi þær líka niður eins og nafnlaus handbendi illmennis í Steven Seagal-mynd.