Mér finnst nú fátt ólíklegra en að Moonrise Kingdom breyti skoðun þinni á Wes Anderson ef þér finnst hann vera of artí, súr eða einhæfur, en ef þú kannt að meta hann nú þegar trúi ég varla öðru en að hún veiti þér afskaplega fyndna og súrrealíska ánægjustund.
Einhvern veginn efa ég að Anderson hafi átt marga vini í æsku. Myndirnar hans eru allar frekar persónulegar og einblína oft á meingallaða karaktera sem eru félagslega einangraðir eða fráhrindandi á einn hátt eða annan. Alltaf er hægt að treysta á það að persónur hans sýna áberandi merki um gáfur ásamt því að vera rosalega, rosalega, ROSALEGA furðulegar. Samt eru þær ekki furðulegar á yfirdrifinn og pirrandi hátt, heldur virðast þær vera fullkomlega eðlilegar, fyrir utan flötu, tilgerðarlegu persónusamskiptin þar sem allir meðhöndla vandamál eins og algjörar geimverur.
Anderson er af gamla skólanum og ég fíla hvað hann er óhræddur við það að ofnota sinn persónulega, brennimerkta listastíl, þar sem bjartir litir poppa út í takmarkaðri litapallettu og uppstillingar á kamerunni fylgja föstu formi. Leikarar líta oft út eins og teiknimyndafígúrur og eru yfirleitt staðsettir beint í miðjunni á rammanum, eða labbandi í dolly-skoti og einstaka sinnum slow motion. Tónlistarvalið er venjulega abstrakt en smellpassar alltaf og frásögnin fer aldrei eftir beinum hefðum, og setur sér sínar eigin reglur í staðinn. Bill Murray og Jason Schwartzmann eru svo ekki lengur fastagestir í þessum myndum, heldur nauðsynlegt hráefni.
Það eru alls ekki margir leikstjórar sem þora alltaf að nota sama mótið án þess að sýna miklar tilbreytingar (oftast tilbreytinganna vegna) en Anderson breytir aldrei um mót, þótt hann kannski skreyti það aðeins öðruvísi í hvert sinn. Stundum reynir hann fullmikið á sig, eins og einhver listanemi sem vill að allir sjái hvað hann fór djarfar leiðir án þess að nokkur taki eftir því. Anderson getur nefnilega verið voða bragðlaus og þurr þegar efnið er óheillandi, sama hvaða brögð hann notar. Hins vegar, þegar hann hefur frábæra sögu í höndunum sem þjónar þessum geimverum sínum ágætlega – í stað þess að veifa þeim bara um – getur hann auðveldlega breyst í hálfgerðan snilling.
Moonrise Kingdom finnst mér vera sú grillaðasta sem Anderson hefur gert, en líka sú sem kemur mest á óvart. Sögunni er best lýst sem þunglyndu barnaævintýri sem er sérstaklega ætlað fullorðnum. En um leið og maður kemst yfir það hvað leikstjórinn er að reyna að pína alla til að vera skrítnir í mynd með mjög þunnum söguþræði, þá fara að sjást merki um vel unnið og heilsteypt verk sem talar alveg sitt eigið tungumál. Fyrsti hálftími myndarinnar bendir ómögulega til þess að það verði einhver vottur af hlýju í sögunni en einhvern veginn tekst leikstjóranum að kremja mýktinni og sannleikanum fyrir, þrátt fyrir svakalega „whimsical“ tón og botnlaust magn af handahófskenndum (en meinfyndnum) absúrdleika.
Húmorinn hefur samt alltaf forgang, og án hans hefði þessi getað orðið langdregnari heldur en The Life Aquatic, og örugglega álíka sjálfumglöð. Moonrise nær þessum áhrifum rétt sem leikstjórinn hefur sóst í með hverri mynd; að gera þunglyndishúmor sem gengur upp vegna þess að persónurnar eru æðislegar. Stundum er ómögulegt að hlæja ekki upphátt, en oftast heldur maður hlátrinum niðri (og hálfvitaglottinu uppi) svo maður missi ekki af einhverju sem getur komið óvænt að manni. Það gerist töluvert oft.
Anderson hefur aldrei leikstýrt bíómynd betur. Rammauppsetningin er eins og eitthvað listaverk og með einungis henni verða hinar leiðinlegustu senur ótrúlega skemmtilegar. Sem fyrr tekur hann líka ófyrirsjáanlegar ákvarðanir með senuuppbyggingar, sem vinna sjaldan gegn myndinni að þessu sinni (trampólínið var ekkert nema GULL). Leikararnir koma allir vel út. Allir! Krakkarnir líka, eða kannski þeir sérstaklega. Svo elska ég þegar Bruce Willis tekur sér frí frá stóru myndunum (þessar sem borga fyrir húsin og sundlaugarnar) og gerir eitthvað lítið þar sem hann lætur töffarann í friði og breytist í alvöru leikara.
Anderson gjörsamlega fattar hvernig það er að vera andfélagslegur krakki, alveg eins og hann leyfði göllum unglingsins að skína grimmt í Rushmore. Moonrise Kingdom er kannski undarleg, en hún segir samt hlutina svolítið eins og þeir eru. Þegar maður er ástfanginn á þessum unga aldri er fátt annað í heiminum sem skiptir máli og þetta undarlega ástarævintýri á milli tveggja tólf ára krakka er meðhöndlað af brjálaðri fagmennsku. Svona akkúrat rétta blandan af krúttlegu, saklausu og gríðarlega vandræðalegu.
Í langan tíma taldi ég að Anderson gæti ekki búið til virkilega góða mynd aftur án þess að hafa Owen Wilson með sér í handritsskrifunum, en eftir að hafa reynt og mistekist nokkrum sinnum hefur það loksins gerst. Þessi fer pottþétt á 2012 topplistann minn um áramótin.
(8/10)