Ameríkani á toppnum í Ameríku

Nýjustu tölur úr miðasölu helgarinnar í Bandaríkjunum segja að George Clooney hafi verið sigurvegari helgarinnar með leigumorðingjamynd sína The American, en sú mynd þénaði 13 milljónir Bandaríkjadala frá föstudegi til sunnudags, en áður hafði hún þénað 3 milljónir þar sem hún var frumsýnd á miðvikudag í síðustu viku.
Tölurnar fyrir myndina eru ögn betri en spáð hafði verið, en svipaðar og floppið Leatherheads með sama leikara árið 2008, en hún slefaði í 31,3 milljónir dala í miðasölunni á meðan hún var í sýningu.

Í myndinni leikur Clooney harðsoðinn byssumann sem er fastur í ítölskum smábæ. Leikstjóri er hinn þekkti rokk ljósmyndari Anton Corbijn.

Myndin er framleidd af Focus Featuers, dótturfyrritæki NBC Universal sem einbeitir sér að smærri myndum og listrænni.

Önnur ný mynd, mynd Roberts Rodriguez Machete, náði ekki toppsætinu eins og margir höfðu spáð, og lenti í þriðja sæti með 11,3 milljónir dala í aðgangseyri.
Þriðja nýja myndin sem frumsýnd var var mynd Drew Barrymore, rómantíska gamanmyndin Going the Distance sem lenti í 5. sæti með skitnar 6,9 milljónir dala í aðgangseyri. Myndin er því enn eitt rómantíska-gamanmynda-floppið hjá Barrymore, en Lucky You, Music and Lyrics og Fever Pitch ullu allar vonbrigðum í miðasölunni.
Toppmynd síðustu viku, Takers, fór niður í 2. sætið, með 11,5 milljónir dala þénustu, og er komin upp í 37,9 milljónir dala alls í kassann.

Topp myndir sumarsins

Nú þegar bíósumarið er búið er rétt að kíkja á hvaða myndir náðu bestum árangri í Bandaríkjunum.
Tekjuhæsta myndin er Toy Story með 408 milljónir dala í aðgangseyri, Iron Man 2 náði inn 312 milljónum dala og The Twilight Saga: Eclipse fékk 298 milljónir dala í aðgangseyri.
Flopp sumarsins eru helst: Cats & Dogs: The Revenge of Kitty Galore með 42 milljónir dala, Scott Pilgrim vs. The World með 29 milljónir dala, The Switch með 21 milljón dala, Jonah Hex með 10,5 milljónir dala og nú Going the Distance.

Trailerinn fyrir The American: