Svo til óþekktur maður, Jesse Peyronel að nafni, hefur boðið í réttinn til að skrifa og leikstýra kvikmynd byggðri á bók Chuck Palahniuk ( Fight Club ) sem nefnist Invisible Monsters. Fjallar hún um afskræmt tískumódel sem ferðast um þjóðveginn með verðandi kynskiptingi, í leit að hefnd.
Væntanleg kvikmynd Steven Soderbergh ( Traffic ) hefur loksins fengið endanlegan titil. Hún hefur bæði gengið undir nafninu The Art Of Negotiating A Turn og How To Survive A Hotel Room Fire, en endanlegur titill er Full Frontal. Julia Roberts, David Duchovny , Catherine Keener , David Hyde Pierce (úr Frasier) og Blair Underwood (úr LA Law) fara með aðalhlutverk.
Leikstjóri Quills, Philip Kaufman að nafni, á í samningaviðræðum um að leikstýra Perfect Stranger sem Julia Roberts myndi leika aðalhlutverkið í. Hún myndi einnig framleiða myndina í gegnum Shoelace Productions, sem er framleiðslufyrirtæki hennar. Myndin fjallar um kvenkyns rannsóknarlögregluþjón sem leitar á Internetið til þess að finna morðingja einn.
Talið er nokkuð víst að Tom Cruise muni leika aðalhlutverkið í Cold Mountain, sem Sydney Pollack er að framleiða. Myndinni yrði leikstýrt af Anthony Minghella ( The Talented Mr. Ripley ) og hafa margar A-lista kvikmyndastjörnur leitast eftir þessu hlutverki. Krúsin hefur greinilega haft betur.
Orlando Jones ( Evolution ) mun leika aðalhlutverkið í kvikmyndinni Drumline sem hefur verið lýst sem Bring It On en með trommum. Fjallar myndin um hæfileikaríkan trommara sem gengur í menntaskóla í Atlanta þar sem er mjög fræg lúðrasveit. Í fyrstu klúðrar hann öllu en vinnur hug og hjörtu allra (ásamt meistaratitlinum) að lokum. Oj bara.

