Þrátt fyrir að fréttir í fjölmiðlum hérlendis síðustu daga hafa gefið í skyn að Pixar teiknimyndin Up hafi haldið toppsæti sínu sem tekjuhæsta mynd Bandaríkjanna um síðustu helgi þá er sú ekki raunin. Rauntalning úr miðasölum sýnir að R-Rated gamanmyndin The Hangover var tekjuhæsta myndin. Ástæðan fyrir þessu er að áætlanir um gengi myndanna beggja á sunnudeginum gengu ekki eftir.
The Hangover græddi 45 milljónir úr 3.269 kvikmyndahúsum á meðan að Up græddi 44,1 milljón úr 3.818 kvikmyndahúsum, en Up hefur grætt 137,2 milljónir fyrstu tvær vikurnar í sýningum vestanhafs. Upprunalegar tölur um gengi myndanna sögðu að Up hefði grætt 44,2 milljónir á meðan The Hangover hefði grætt 43,3 milljónir.
Þetta þykja stórfréttir þar sem gamanmyndir njóta ekki venjulega góðs gengis yfir sumartímann. Sú þróun hefur hægt og rólega snúist við undanfarin ár, en það má segja að Wedding Crashers hafi opnað dyrnar fyrir þessari velgengni gamanmynda sumarið 2005 og síðan þá er venjan að sjá eina stóra gamanmynd í grófari kantinum á hverju sumri (Pineapple Express nú síðast).
Umræður hafa aukist um hvort fyrirtæki séu í raun farin að fiffa við tölurnar til þess að þær haldi velli í fyrstu fréttum þegar gengi mynda er tekið saman eftir hverja helgi vestanhafs. Kvikmyndavefsíðan Spill.com vakti meðal annars athygli á þessu í vikulegu hlaðvarpi sínu að við sáum svipaða hluti þegar sýningar hófust á Speed Racer vestanhafs. Upprunalegar tölur gáfu þá í skyn að hún hefði verið næstvinsælasta mynd helgarinnar þegar Vegas myndin What happens in Vegas… var það í raun. Sá munur var leiðréttur þegar frá liðu stundir – sjá tölurnar hér.

