Ördómar um heimildarmyndir Græna Ljóssins

Nú þegar Bíódögum Græna Ljóssins fer senn að ljúka er rétt að líta á þær myndir sem eru til staðar á hátíðinni. Hátíðin hefur farið vel fram hingað til og Sæbjörn Valdimarsson, aðalgagnrýnandi Morgunblaðsins, hefur farið fögrum orðum yfir hverja myndina á fætur annarri.

Mér hefur tekist að sjá flestar myndirnar og ætla hér að birta örstutta rýni um heimildarmyndirnar á hátíðinni og gefa þeim einkunn. Listinn er eftirfarandi (hæsta einkunn efst o.s.frv.)

1.Man on Wire
Stórkostleg heimildarmynd og án alls vafa besta mynd Bíódaganna hingað til. Fékk Óskarinn sem besta heimildarmynd síðasta árs og er vel að þeim titli komin. Ég er með hana sem næstbestu mynd ársins 2008 og stend við það. 9/10.

2.Young at Heart
Hugljúf og sæt heimildarmynd um hóp eldri borgara sem finnst ekkert skemmtilegra en að syngja. Fékk Óskarstilnefningu sem besta heimildarmynd síðasta árs. Skilur engan eftir ósnertan og kemur virkilega á óvart. 9/10.

3.Me and Bobby Fischer
Þessi íslenska heimildarmynd er ekki nógu áhugaverð framan af en þegar Bobby Fischer kemur á sviðið og sýnir hversu gjörsamlega geðveikur hann var fer hún á virkilega gott flug. Gaman að sjá að Kári Stefánsson er eini maðurinn sem þorir að rífa kjaft við hann. 7/10.

4.Garbage Warrior
Það er alltaf gaman að sjá öðruvísi karaktera í myndum og trúið mér,
þessi maður á vel skilið sína eigin heimildarmynd. Skemmtileg mynd um
baráttu manns gegn kerfinu og þó svo að maður sé ekki beint sammála
boðskap hans þá er margt gott til staðar. 6,5/10.

5.Not Quite Hollywood
Heimildarmynd sem var 10 ár í bígerð og verður að teljast þrátt fyrir allt þónokkur vonbrigði. Skemmtilegt viðfangsefni sem hefði verið hægt að gera meira úr. Það skemmir fyrir hversu erfitt er að fylgjast með söguþræðinum vegna þess hversu margir viðmælendur eru til staðar sem maður þekkir ekki. Henni tekst þó alltaf að halda sér áhugaverðri. 6/10.

6.Bigger Faster Stronger
Heimildarmynd sem byrjar á því að fjalla um steranotkun í Bandaríkjunum en fer síðan fullmikið burt frá því viðfangsefni og einbeitir sér að sambandi sögumannsins við fjölskyldu sína, en bræður hans glíma við steranotkun og finnst ekkert að því. Frekar þurr biti þegar allt kemur til alls. 5,5/10.

7.Cocaine Cowboys 2: Hustlin’ With the Godmother
Eins góð og Cocaine Cowboys (1) var þá nær þessi ekki að fylgja henni eftir. Mjög áhugavert viðfangsefni, þar sem aðalsöguhetjan skildi einmitt eftir sig opna bók eftir fyrri myndina en leikstjórinn sýnir ekki hversu megnugur hann er og því er hér um mikið miðjumoð um að ræða. Töluverð vonbrigði. 5/10.

8.Wordplay
Þegar fjallað er um extreme viðfangsefni, áhugamál eða íþróttir skiptir máli að myndin sé action-packed á einhvern hátt frá upphafi til enda (sbr. t.d. The King of Kong sem tekst alltaf að halda manni límdum við skjáinn þrátt fyrir fáránlegt viðfangsefni). Wordplay tekst þetta engan veginn og er afar bragðdauf þrátt fyrir æsispennandi lokamínútur. Í stað þess að einbeita sér að umræddri krossgátukeppni sem myndin ætti í raun að vera um frá A til Ö, fjallar hún þess í stað um frægar manneskjur í Bandaríkjunum sem finnst gaman að leysa krossgátur, t.d. Bill Clinton. Þetta háir henni að mörgu leiti og kemur niður á henni í lokin. 4/10.

9.Slacker Uprising
Mér finnst mjög gaman af Michael Moore og myndum hans, þrátt fyrir að varla sé hægt að kalla þær heimildarmyndir, þær eru fyrst og fremst skemmtiefni. Ég skil vel að Slacker Uprising hafi ekki farið í kvikmyndahús því hún er hreinlega ekki nógu góð. Hún reynir að gera Moore að píslarvætti fyrir það að reyna að fá fólk í Bandaríkjunum til að kjósa og þegar allt kemur til alls er hún ekkert nema uppklapp á samkomum og væmnum ‘proud to be an American’ mómentum. Aðeins fyrir die hard Michael Moore aðdáendur, sem ég er greinilega ekki. 3/10.

Fljótlega mun ég rýna í allar myndir hátíðarinnar sem ekki eru heimildarmyndir – fylgist vel með!