The Platform: Hugmyndafræði sem hegðun

The Platform (2020, Galder Gaztelu-Urrutia) er öll um mannlega hegðun. Hvernig við bregðumst við aðstæðum, hvað við tökum með okkur frá þeim aðstæðum og hvað fær okkur til þess að breyta hegðun, breyta viðbrögðum, hvað breytir persónuleikum okkar? Kvikmyndin kafar þó dýpra og leitast við að spyrja spurninga, ekki bara um mannlega hegðun heldur rætur þeirrar hegðunar, hvað knýr okkur til þeirra gjörða sem við framkvæmum, hver er rótin að persónuleika okkar?

Til að svara þeim spurningum stillir kvikmyndin upp erkitýpum af persónuleikum og lokar þá af í litlu rými þar sem þessir persónuleikar hafa ekki annan kost en skella hornum sínum saman. Þegar kvikmyndin hefst er fulltrúa einstaklingshyggju stillt upp gegn samfélagshyggjufélaga. Ábyrgð gagnvart öðru fólki er þar tíunduð sem aðalbitbein þessara stangandi hugsunarhátta. Ég ber enga ábyrgð á öðrum gegn ég ber ábyrgð á öðrum. Samfélagsleg ábyrgð karkteranna er opinberuð og skoðuð.

Einstaklingshyggjupésinn nýtir sér stöðu sína gagnvart þeim sem eru (í þessu tilviki bókstaflega) lægra settir og níðist á þeim, á meðan sá sem er samfélagslega hugsandi reynir að halda sér ábyrgum gangvart þeim sem eru í kringum hann. Ekki tekur þó langan tíma fyrir fulltrúa samfélagshyggju að átta sig á því að það þýðir lítið að berjast fyrir rétti og stöðu annarra ef þeir gjalda ekki þér ekki í sömu mynt.

Kvikmyndin svarar því eigin spurningu með annarri spurningu: Hvurslags samsuðu gilda þarf að finna upp til þess að hægt sé að tryggja samvisku og sanngirni í mannlegu samfélagi?

Svarið er hæfileg samsuða andstæðra gilda í þessu tilfelli. Í kvikmyndinni er sú samsuða persónuleikaeinkenna bókstaflega túlkuð með mannáti. Aðalkarater kvikmyndarinnar, Goreng (Iván Massagué), neyðist til þess að lifa af á holdi félaga sinna og við mannátið tekur hann á sig gildi og persónuleikaeinkenni þeirra karaktera. Frá einstaklingshyggjukarakternum tekur hann aukinn skilning á mannlegu eðli, frá öðrum samfélagshyggjusinna tekur hann löngunina til að breyta til hins betra. Úr verður einhverskonar hugmyndafræðilegur Messías sem tekur að sér að breyta sögusviðinu til hins betra.

Hreinn einstaklingshyggjusinni mun afmanngera annað fólk í huga sér og gera sér þannig kleift að haga sér eins og honum sýnist.

Samfélagshyggjusinninn er tilbúinn að fórna sér fyrir aðra. Ef staðið er á sitt hvorum pólnum verður framþróun mannkynsins enginn. Engin þróun til hins betra, enginn stigi upp á við. Kvikmyndin virðist því vera að benda á skekkju þess að stilla sér upp við annan hvorn pólinn. Til framfara og breytinga þarf fólk að geta staðið í miðjunni, eða að minnsta kosti nær miðju heldur en pólunum.

The Platform bendir okkur á hvernig hægt er að skilja sig frá þessum pólum með sínu helsta symbóli: Opnun augna. Goreng er stöðugt að opna augu sín fyrir nýjum aðstæðum, fyrir nýjum raunveruleikum, fyrir nýjum sannleik. Í hvert sinn þarf hann að bregðast við nýju áreiti, í hvert sinn hefur persónuleiki hans breyst í takt við þær aðstæður. Fyrir vikið hefur hann aukinn og heilsteyptan skilning á hegðun fólksins í kringum sig, viðbrögðum þeirra og venjum. Hann skilur að án þess að hugsa um sjálfan sig þá er hann einungis að kasta lífi sínu fyrir bí, hann skilur líka að ef ekki er fyrir samfélagshyggju þá kemur ekkert til með að breytast.

Kvikmyndin biðlar því til áhorfenda að jaðra sig ekki við annan hvorn pólinn heldur vera vakandi og augun opin fyrir bæði sjálfinu og samfélaginu. Eitt án annars væri í raun merkingarlaust og innantómt og því þarf að huga að báðu svo þau geti þrifist. Lokaskilaboð kvikmyndarinnar eru því að við sem nú erum búin að velja okkur stað á milli pólanna megum ekki láta það spilla þeim saklausu sem á eftir okkur koma. Persónulegar stefnur og hugmyndafræði eigi ekki að þurfa að menga þá saklausu heldur sé skylda okkar að gefa þeim tækifæri til þess að sleppa undan kæfandi hæli þeirra sem á undan komu.

Heiðar Bernharðsson