Zombieland leikstjóri gerir SpyHunter kvikmynd

Leikstjórinn Ruben Fleischer kom með látum fram á sjónarsviðið með myndunum Zombieland og 30 Minutes or Less, en nýjasta mynd hans, Gangster Squad, hefur ekki náð sama flugi. Gangster Squad var frumsýnd í janúar og er búin að þéna 87 milljónir Bandaríkjadala um heim allan, en myndin kostaði 60 milljónir dala í framleiðslu.

Deadline.com segir frá því að Warner Bros sé nú búið að tryggja sér starfskrafta leikstjórans til að leikstýra SpyHunter, nýrri hasarmynd  sem byggja á á hinum sígilda spilakassaleik með sama nafni frá níunda áratug síðustu aldar, en leikurinn gekk í endurnýjun lífdaga í nýrri útgáfu fyrir PlayStation 2 leikjatölvuna árið 2001.

Í leiknum þá eiga spilarar að keyra um í einskonar „James Bond“ ofurbílum, sprengja upp vonda kalla og reyna að forðast að drepa almenna borgara.

Carter Blanchard, sem skrifaði handrit að vísindaskáldsögumyndinni Glimmer, eftir Ringan Ledwidge, skrifar handrit myndarinnar en Dan Lin, sem framleiddi Sherlock Holmes, og Roy Lee, sem framleiddi The Woman in Black, munu framleiða myndina.

Nýjasta útgáfan af tölvuleiknum SpyHunter, Spy Hunter: Nowhere to Run, þar sem Dwayne Johnson er aðalpersónan, kom út árið 2006.

Deadline segir frá því að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem menn reyna að gera mynd eftir SpyHunter leiknum. M.a. átti Dwayne Johnson upphaflega að leika aðalhlutverkið í SpyHunter: Nowhere to Run kvikmynd, áður en þau áform fóru út um þúfur.

Það er því ekkert 100% víst í þessum efnum, en það er góðs viti að flottur leikstjóri sé kominn í spilið.

 

Stikk: