X-Men stjarna til WikiLeaks

James McAvoy, sem lék Professor X í síðustu X-Men mynd og mun leika í þeirri næstu líka, X-Men: Days of Future Past, er í viðræðum við DreamWorks um að leika annað aðalhlutverkið í mynd um uppljóstrunarvefinn WikiLeaks.

Benedict Cumberbatch hefur nú þegar verið ráðinn í hlutverk sjálfs aðalmannsins, Julian Assange, en McAvoy myndi leika Daniel Domscheit-Berg, sem skrifaði bókina Inside WikiLeaks: My Time With Julian Assange At The World’s Most Dangerous Website. Myndin verður einmitt byggð á þessari bók og bókinni WikiLeaks: Inside Julian Assange’s War On Secrecy, sem er eftir bresku blaðamennina David Leigh and Luke Harding. 

Julian Assange setti WikiLeaks vefsíðuna í loftið árið 2006 og hefur síðan þá valdið miklum taugatitringi og uppþotum hjá stjórnvöldum víða um heim, með því að leka  opinberum skjölum og leyndarmálum. Í kjölfarið ákvað Bandaríkjastjórn að kæra Assange.

Domscheit-Berg byrjaði að vinna með WikiLeaks eftir að hann hitti Assange á Chaos Computer Club ráðstefnunni árið 2007, og varð í kjölfarið talsmaður samtakanna.

Assange heillaði Domscheit

Samkvæmt frétt Variety kvikmyndaritsins þá heillaði Assange Domscheit-Berg upp úr skónum með persónutöfrum sínum, og sagði að þeir tveir gætu breytt heiminum. Talið er að Assange verði í myndinni birtur sem göfugur baráttumaður sem lætur völdin stíga sér til  höfuðs, um leið og hann verður meira og meira ofsóknaróður og heltekinn af því að vinna „upplýsingastríðið“.

Domscheit-Berg hætti að vinna með Assange þegar honum fannst Assange ekki lengur fylgja meginreglum blaðamennskunnar, um heilindi og heiðarleika, og er Domscheit-Berg gagnrýninn á Assange í bókinni.

Byrja á að taka myndina snemma á næsta ári svo að McAvoy nái að klára verkefnið áður en tökur á X-men hefjast í vor.