Þrír á geðspítala í fyrsta Glass plakati

Áður en leikstjórinn M. Night Shyamalan frumsýndi kvikmynd sína Split, þá kom það flestum á óvart að hann væri hægt og rólega að byggja upp sérstakan „heim“,  þ.e. myndir sem tengdust innbyrðis.  Meira að segja er sagt að sjálfur aðalleikari Unbreakable, Samuel L. Jackson, hafi ekki verið meðvitaður um þetta.

Í lok aðstandendalistans sem rann yfir skjáinn í lok Split, sem frumsýnd var árið 2016, og þar sem James McAvoy lék mann með 23 mismunandi persónuleika, kom skyndilega fram ( ath. þetta er spilliefni ef þú hefur ekki enn séð Split ) persónan sem Bruce Willis lék í Unbreakable. Og núna munu báðar myndirnar tengjast í Glass.

Eins og fram kom á CinemaCon afþreyingaráðstefnunni fyrr á árinu þá mun í Glass ein aðalhetja og tveir þorparar úr Unbreakable og Split koma saman. Kevin Crumb, sem McAvoy lék ( upprunalega persónan sem er með margskiptan persónuleika ), persóna Willis, David Dunn, og persóna Samuel L. Jackson, Elijah Prince, öðru nafni Hr. Glass. Þeir eru allir staddir saman á geðspítala, og eru þar í sérstöku prógrammi fyrir fólk sem heldur að það sé ofurhetjur.

Nú hefur leikstjórinn loksins birt fyrsta plakat myndarinnar sem sjá má hér að neðan:

Þetta er glæsilegt plakat, en þarna má sjá Elijah, Kevin og David frá mitti og niður, með spegilmyndir ofur-persóna sinna speglaðar í gólfinu fyrir framan sig.

Shyamalan hefur sagt opinberlega að von sé á einhverju „sérstöku“ á Comic-Con hátíðinni í San Diego 20. júlí nk., og margir telja að hann eigi þar við frumsýningu á stiklu úr myndinni.

Von er á Glass í bíó hér á Íslandi 18. janúar nk.