Wall Street spáð toppsætinu um helgina

Kvikmyndasérfræðingar í Bandaríkjunum spá því að Wall Street framhaldsmyndin, Wall Street: Money Never Sleeps, sem frumsýnd verður í dag, muni fara beint á toppinn á aðsóknarlistum þar vestra um helgina. Þar með yrði myndin fyrsta toppmynd Michael Douglas, aðalleikarans, síðan hann fór á toppinn með Don´t Say A Word árið 2001.
Fyrri myndin, Wall Street, var frumsýnd árið 1987 og þénaði alls 87 milljónir Bandaríkjadala á núvirði. Búist er við að framhaldið muni skila 20 milljónum Bandaríkjadala í kassann um helgina, enda binda menn vonir við að aðdáendur fyrri myndarinnar skili sér í bíó.

Ásamt gamla refnum Douglas, leika nú ungir kappar lykilhlutverk, eða þeir Shia LaBeouf og Carey Mulligan. Auk þeirra kemur Charlie Sheen, sem lék ásamt Douglas í upprunalegu myndinnni, fram í gestahlutverki (cameo).

Markaðsrannsóknir vestra sýna að það hafi verið snjallt bragð hjá framleiðendum að nota unga leikara í aðalhlutverkin með Douglas, en kannanir sýna að áhugi er mikilll á meðal yngri bíógesta.

Af öðrum nýjum myndum í bíó um helgina í Bandaríkjunum má nefna Legend of the Guardians: Owls of Ga´Hole, sem er þrívíddar ævintýramynd frá Warner Bros.

Þriðja nýja myndin í bíó er svo You Again frá Disney, en þetta er mynd sem er miðuð að ungum áhorfendum, með þeim Kristen Bell, Jamie Lee Curtis, Betty White og Sigourney Weaver í aðalhlutverkum.

Allar þessa myndir keppa um hylli bíógesta, ásamt eldri kempum, svo sem mynd Ben Affleck The Town, sem var á toppnum um síðustu helgi.