Variety spáir Hrútum Óskarstilnefningu

Hið virta kvikmyndarit Variety spáir því að Hrútar, mynd Gríms Hákonarsonar, hljóti tilnefningu til Óskarsverðlaunanna á næsta ári. Hrútar Rams

Myndin hlaut verðlaunin Un Certain Regard á Cannes-hátíðinni í vor.

Á lista Variety er Hrútar í fjórða sæti yfir líklegustu erlendu myndirnar til að hreppa Óskarinn. Í efsta sæti er Son of Saul frá Ungverjalandi, í öðru sæti Mustang frá Frakklandi og í því þriðja Labyrinth of Lies frá Þýskalandi. Í fimmta sæti er svo Viva frá Írlandi.

Jóhann Jóhannsson er í níunda sæti á lista yfir þau tónskáld sem gætu fengið tilnefningar fyrir bestu frumsömdu tónlistina. Jóhann samdi tónlistina við Sicario en hann var einmitt tilnefndur til Óskarsins fyrr á þessu ári fyrir tónlistina í The Theory of Everything.

Kvikmyndin Everest og leikstjóri hennar Baltasar Kormákur koma einnig við sögu í spánni en eru hvergi á meðal þeirra sem þykja eiga mestar líkur á því hljóta tilnefningar, samkvæmt Variety.