Valentínusardagurinn sló Valentínusardagsmetið

 

Rómantíska
gamanmyndin Valentine’s Day, sem skartar einum stærsta stjörnuhóp leikara sem
sést hefur í kvikmynd, sló aldeilis í gegn um Valentínusarhelgina í
Bandaríkjunum og setti nýtt met í tekjum fyrir þessa miklu afþreyingarhelgi.
Tók myndin 52 milljónir dollara í kassann og hafði þar með betur en tvær aðrar
myndir sem voru frumsýndar á landsvísu, Percy Jackson & the Olympians: The Lightning Thief og The Wolfman, sem
báðar náðu um 30 milljónum frá föstudegi til sunnudags.

Er því greinilegt að
bæði þemað og það að safna þessum óheyrilega fjölda stjarna saman borgaði sig,
en framleiðslukostnaður myndarinnar var einmitt 52 milljónir, eða jafnmikið og
hún tók inn á fyrstu þremur dögum sínum í bíó. Því er það nokkuð öruggt að New
Year‘s Day
, framhald þessarar myndar, verður að veruleika innan langs tíma.

Hvorug hinna tveggja myndanna olli þó vonbrigðum og gátu allir aðstandendur myndanna verið sáttir með
helgina, en margir höfðu spáð því að í það minnsta ein þessara mynda yrði undir
í kapphlaupinu. Þar sem mánudagurinn er einnig frídagur í Bandaríkjunum munu
allar þessar myndir bæta duglega við sig í dag að auki.

Avatar heldur áfram að rúlla og fékk tæpar 23 milljónir í aðsókn um helgina, er komin
í tæpar 660 milljónir í Bandaríkjunum og 2.265 milljónir á heimsvísu, og er hvergi nærri hætt. Rugl
tölur.

Dramarómantíkin Dear John, sem var á toppnum í síðustu viku, féll niður í fimmta sætið í sinni
annarri viku með 15 milljónir dollara, á meðan Tooth Fairy, sem olli vonbrigðum
fyrir tæpum mánuði, þegar hún var frumsýnd, nær að halda furðumiklu stími á
milli helga og endaði í sjötta sætinu. Því geta framleiðendur hennar farið að
anda rólegar, en það var farið að stefna í að hún næði ekki að borga sig upp.

Það má hins
vegar fara að kalla Edge of Darkness flopp (ef heimsaðsóknin bætir ekki upp
fyrir það), þar sem hún endaði í áttunda sætinu um helgina og hefur aðeins
fengið 36 milljónir í tekjur, en kostnaður við hana er talinn hafa verið um 80
milljónir
dollara.

Um næstu
helgi verður svo spennumyndin Shutter Island frá meistara Martin Scorsese og
með Leonardo DiCaprio í aðalhlutverkinu frumsýnd og verður áhugavert að sjá
hvernig hún gengur ofan í Kanann.

En  koma þessar tölur ykkur á óvart? Og hvernig
haldiði að Shutter Island muni ganga?