Úr sýktu holdi yfir í ljúffenga böku

Það er viðbúið að fólk fái vatn í munninn við að horfa á nýjustu kvikmynd leikstjórans Mark Mylod sem samkvæmt frétt í The Telegraph nær að mynda veislumat á fullkominn máta í The Menu, grínmynd með svörtum húmor, sem kemur í bíó hér á Íslandi á morgun.

Ralph Fiennes og Anya Taylor-Joy.

Leikstjórinn á að baki vinnu við sjónvarpsþættina vinsælu Game of Thrones og hélt svo áfram og gerði aðra verðlaunaseríu, Succession, þar sem matur kemur mikið við sögu, rétt eins og í Krúnuleikunum.

„Ég tók upp atriði þar sem [skáldaður húðsjúkdómur] grayscale var numinn á brott með spjóti af bringu persónu Iain Glenn í Game of Thrones,“ segir Mylod við The Telegraph.

Mylod skipti þar næst frá myndbrotinu af sýktu holdi riddarans yfir í myndskeið af matarskeið að fara inn í ljúffenga böku.

100% nákvæmni er krafist.

„Matar-stílistinn paraði saman áferðina af hinum ljúffenga eftirrétti við útlit greyscale húðsjúkdómsins. Þannig að þetta leit út eins og að skeið væri að fara inn í húð Iain. Og við fengum þessa dásamlega klísturkenndu áferð, með kjötþráðunum og lekandi safa, þegar persónan setur skeiðina í munninn. Það tók marga mánuði að fullmóta þetta, þetta leit ógeðslega út, og ég er mjög stoltur af því!“

Ofurríkir gestir

Í The Menu eru álíka ljúffeng andartök. Ralph Fiennes leikur aðalhlutverkið, yfirkokk á dýrum veitingastað á einkaeyju. Gamanmyndin fylgist með hópi ofurríkra gesta frá Kísildal í Bandaríkjunum – netfyrirtækjagaurum, gömlum Hollywood leikara og aðstoðarmanni hans m.a. Kvöldstundin sem þetta fólk á fyrir höndum á eftir að verða ógleymanleg, ekki bara fyrir þau heldur líka fyrir starfsfólks veitingastaðarins.

Aðrir gestir á staðnum eru meðal annars matarsnobbari, sem leikinn er af Nicholas Hoult sem dýrkar kokkinn Slowik, sem Fiennes leikur, kærasta hans, sem Anya Taylor-Joy leikur, og eldri hjón sem eru svo vel sett að þau hafa borðað oftar á lúxusveitingastaðnum en þau vilja muna ( og í raun muna þau ekki eftir neinni máltíð).

Grimmasta persónan er líklega matargagnrýnandinn Lillian, sem segist hafa uppgötvað Slowik. Hún er leikin af Janet McTeer.

Janet McTeer til vinstri sem matargagnrýnandinn Lillian.

Eins og segir frá í The Telegraph þá undirbjó leikkonan, sem er frá Newcastle í Englandi, sig undir hlutverkið með Ruth Reichl, sem var í tvo áratugi matargagnrýnandi á Los Angeles Times og The New York Times.  „Ruth og ég ræddum hvernig á ákveðnum tímapunkti fer allt að snúast um gagnrýnandann,“ segir McTeer. „En góður matarrýnir ætti að vera nafnlaus. Best væri ef þú færir inn á veitingastað og enginn veit af þér þar. En persóna mín birtist mjög áberandi með bleikt hár og í flottu dressi svo fólk taki örugglega eftir henni.“

Fleiri matarmyndir

Eins og The Telegrap bendir á hefur ekki verið mikið um svona matarkvikmyndir, nema rétt nýlega með Boiling Point, með Stephen Graham, í hlutverki útbrunnins kokks. (Verið er að gera sjónvarpsseríu upp úr kvikmyndinni).

Þá megi einnig nefna The Bear, sem sló nýlega í gegn á Disney+ og Mammals sem var frumsýnd á Amazon Prime á dögunum, með James Corden í hlutverki matreiðslumanns í vanda.

Leitaði í smiðju reyndra kokka

Hinn 57 ára gamli leikstjóri The Menu leitaði í smiðju reyndra kokka við undirbúning myndarinar og hámhorfði á alla 38 þætti af Chef´s Table, þar sem áhorfendur fá að kynnast mörgum af stærstum nöfnum í bransanum.  Hann hvatti leikarana líka til að horfa.

„Ég benti Ralph sérstaklega á að horfa á þáttinn með Grant Achatz [Michelin staðurinn Alinea í Chicago]. Hann lagði sig allan fram hvað nýjungar og þróun listarinnar varðaði. (Grant fékk krabbamein í munninn 2007, en meðferðin kostaði hann bragðskynið um tíma)

Þá hvatti leikstjórinn Hoult til að borða á The Fat Duck í Berkshire.