Tónlist í bland við kvikmyndir er ein skemmtilegasta og kröftugasta mixtúra sem ég þekki. Vel valin og hæfileg tónlist getur galdrað upp sterkar tilfinningar, fært þig frekar í hugarheim höfundar myndarinnar, eða dáleitt þig í atburðarrásina. Við munum öll eftir viðeigandi lögum í kvikmyndum þar sem valið hefur verið nákvæmt og vel útpælt þannig að textinn og myndirnar komi vel saman til að grípa okkur frekar í bland við frábæra melódíu, en það er til önnur hlið á lagavali kvikmynda sem virkar mun sérkennilegri.
Þá á ég við viljandi óviðeigandi lagaval, þegar kvikmyndagerð verður að skipulagðari óreiðu og allt virðist falla vel (ef ekki betur) saman en ef myndin hefði valið meira viðeigandi lag. Þetta er mun erfiðari list að mínu mati og þegar pælingin heppnast þá verður útkoman alveg gríðarlega sérstök og heillandi, en þetta er hið allra besta að mínu mati.
ATH: ég reyni að forðast mikilvæga spilla, sérstaklega fyrir þær myndir sem fæstir hafa séð.
10. Drive Angry – ‘That’s The Way I Like It.’
Þessi stórskemmtilega Nic Cage ræma inniheldur fjári töff lög sem passa alveg virkilega þar sem þau skjóta kollinum, en einu lagi tókst að toppa Meat Loaf sem óvæntasta og mest viðeigandi lag myndarinnar, hið káta og kjánalega That’s The Way I Like It með KC & The Sunshine Band. Það ætti ekki að passa inn í kvikmynd sem á mun meira sameiginlegt með rokki og metal en diskótónlist, en samblandan af geðveikinni sem á sér stað gerir notkunina bæði fjandi svala og bráðfyndna.
Persóna William Fichtners keyrir vetnistrukk á fullum hraða í átt að heilum herskara af lögreglubílum, gengur út úr trukknum á meðan hann er enn á fullri ferð eins og ekkert sé sjálfsagðara, og endar á því að valda mikilli eyðileggingu í svakalegri sprengingu… með vetnistrukk! Fichtner á sér mörg svöl móment, en ekkert toppar þetta. Töff, kjánalegt, og bráðfyndið eins og myndin sjálf- svona líkar mér það.
9. Lord Of The Rings: The Return Of The King – ‘Edge Of Night.’
Allt við þetta atriði er tær snilld. Senan skilar heilmiklu til okkar og tekst að vekja upp sterkar tilfinningar í leiðinni, það er engin furða að þriðja myndin er talin sú besta því þetta er einungis ein af fjölmörgum stórkostlegum senum myndarinnar. Að sjá Denethor slafra í sig dýrindis mat eins og snobb á meðan Pippin syngur fallegt lag með sorgarrödd er eitt og sér nóg til að maður þoli ekki ‘konung’ stórborgarinnar, en myndin sýnir okkur einnig Faramir, son Denethor, og herskara af mönnum ráðast í opið gin dauðans þegar þeit vita að ekkert mun verða úr því og eru einungis að fylgja fyrirmælum hins háborna.
Atriðið er vægast sagt sorglegt, en það virkar einnig mjög fallegt þrátt fyrir hversu hrottalegt og illgjarnt það er. Kannski útaf blöndunni sem ég nefndi fyrir ofan, kannski var það frábær leikur Billy Boyd, eða hugsanlega er það útaf hversu saklaus og fagur texti lagsins er og manni finnst eins og hann ætti alls ekki að vera misnotaður svona. Ekki nema rétt rúm mínúta og samt er þetta lagaval algjör snilld!
8. Watchmen – ‘Unforgettable.’
Byrjunarsenu Watchmen tekst vel að koma manni beint í myndina með hrottalegum barsmíðum, tilvísunum í tímabil myndarinnar, og sláandi útliti sínu, en einnig er hún sérstaklega óþægileg og minnisstæð fyrir lagið sem er spilað undir einhverjar svakalegustu barsmíðar sem ég hef séð í kvikmynd. Kaldhæðnin í stöðunni er sú að senan virkar í kjölfarið minnistæðara fyrir notkunina á laginu Unforgettable eftir Nat King Cole.
Aðaltexti lagsins virðist viðeigandi fyrir Grínistann þegar við sjáum hann fyrst í myndinni, en afslappaða rómantíska stemmningin í laginu passar engan vegin og virkar frekar ógnvekjandi í bland við barsmíðarnar- þá sérstaklega þegar hluti af laginu inniheldur engan söng og átökin valda miklum skemmdum í íbúðunni. Frekar uggandi og óþægilegt, eins og senan á að vera. Kemur ræmunni af stað með ljúfum látum.
7. 2001: A Space Odyssey – ‘Daisy.’
Ég sá 2001 aftur eftir langt millibil og fannst ég liggja við að fá taugaáfall í lokin því allt var svo svakalega spennuþrungið og ógnvekjandi (allavega á Blu-ray, STÓR munur). Það sem hóf þá óþægilegu kvikmyndareynslu var akkúrat þessi sena, þegar HAL 9000 er tekin úr sambandi. Senan er núþegar virkilega óþægileg og manni líður eins og veggirnir í myndinni séu að þrengjast að sér, en ef djúpur andardráttur Dave og eldrauða útlit myndarinnar ná ekki til þín, þá mun hægi og dvínandi söngur HAL grípa adrenalínkirtlana þína og kreista úr þeim allt líf.
Lagið er svo saklaust og krúttlegt að það má nánast kalla það sadismi að nota það fyrir svona senu, en þar akkúrat liggur snilldin; manni líður stöðugt óþægilegra bæði fyrir hönd Dave og HAL9000 að allt virðist detta í sundur fyrir manni í senunni og lagavalið ýtir akkúrat undir það. Þetta er frábær uppbygging fyrir stjörnuhliðssenuna og kemur manni svo sannarlega á rétta bylgjulengd fyrir litríka hryllingin sem þar fylgir.
6. Sweeny Todd: The Demon Barber Of Fleet Street – ‘Pretty Women.’
Þessi sena er skemmtilega súr þegar maður pælir í henni. Upp að þessum tímapuntki í myndinni hefur ‘söguhetja’ okkar , Sweeny Todd, sóst eftir að ná fram hefndum gegn dómaranum Turpin sem varð konu hans og barni að bana. En þegar Turpin er í hans höndum og algjörlega varnarlaus þá hefja þeir tveir ljúfan dúet um fagrar konur í bland við útskot af hefndarblæti rakarans.
Senan verður vægast sagt súrealísk fyrir þessa sérkennilegu stefnu og virkar þess vegna við hæfi þar sem við fáum þá sjónarhorn Sweeny á því sem er að gerast, þá á ég við að hefndin sem hann og við áhorfendurnir höfum beðið eftir verður loks að veruleika og virðist aðeins of auðveld- svo auðveld að hún virkar óraunveruleg. Hann tekur þess vegna sinn tíma og vill seðja hefndarþorstann með stæl. Senan þjónar þeim tilgangi að byggja upp hefndarslagið og tekst það með afbragði auk þess að skemmta manni alveg svakalega. Þetta fá menn fyrir að drepa Dumbledore.
5. Shaun Of The Dead – ‘Don’t Stop Me Now.’
Ókei, þetta er frekar persónulegt val því þetta voru mín fyrstu Queen-kynni og enn í dag tengi ég þetta lag við þessa senu, plús ég fæ alltaf gott kikk úr setningunni ‘kill the queen.’ Allt sem er í gangi í senunni er fáránlegt og fyndið og því ekki að bæta við fjörugu og hressu lagi í blönduna til að gera það ennþá kjánalegra?
4. Reservoir Dogs – ‘Stuck In The Middle.’
Þetta er óviðeigandi lagaval sem allir muna eftir, þá sérstaklega af því það var svo óviðeigandi. Hverjum hefði dottið í hug að smella einum léttum og kátum slagara saman við senu þar sem eyra er ekki bara skorið af varnarlausum einstakling, heldur er það nánast rifið af miðað við ólætin sem heyrast þegar skotið færist frá atburðinum. Rómantískir undirtónar lagsins hjálpa ekki heldur, en það er málið- þetta á að vera óþægileg sena og hún virkar fimmfalt óþægilegri og eftirminnilegri þökk sé laginu.
3. Life Of Brian – ‘Always Look On The Bright Side Of Life.’
Þetta er í léttari kanntinum þó það eigi alls ekki að vera það, enda kann Monty Python teymið mann best að fara svo langt yfir strikið að ákveðin fegurð myndast í illkvitninni. Þetta er ein fyndasta senan að mati þeirra sem hafa séð myndina og ég tek undir það, enda kolsvartur húmor á hárréttum stað. Af hverju ekki að syngja um dýrindi lífsins þegar þú ert látin hanga til að deyja eins og þú værir tilvonandi harðfiskur?
Það allra fyndnasta, sætasta, og mest uggandi við þetta atriði er að í dag er þetta þriðja vinsælasta jarðarfaralag breta. Undirliggjandi ógnheit og kímnigáfa senunnar verða ennþá magnaðari þegar maður veit að áhrif þess hafa lekið svo langt í hversdagslífið. Alveg drepfyndið og margvíslega kaldhæðnislegt.
2. Goodfellas – ‘Layla.’
Þetta er meistaralegt lagaval, hreint og beint. Af öllum lögunum á þessum lista virðist ekkert vera jafn byltingarkennt lagarval og þetta. Layla er lag eftir Eric Clapton og Jim Gordon sem er eitt þekktasta og heitelskaða ástarlag rokksögunnar, en þú myndir aldrei lesa það út úr notkunninni í Goodfellas. Þar er cover-útgáfa lagsins eftir þá Derek and the Dominoes notuð þegar lík finnast um allan bæ og Tommy hækkar í tign, en lykillinn að lagavalinu er að finna í þeim hluta sem við heyrum í senunni.
Það er engin texti í píanóhluta lagsins sem við heyrum í myndinni, en samt virðist uppliftandi og ljúfsára melódían segja okkur að fyrrverandi áhyggjur eru á bak og burt og nú sé nýtt upphaf að hefjast. En samt líður manni eitthvað undarlega illa við að heyra lagið notað í senunni þegar við erum að sjá hrottalega myrt lík, enda vísar það á að ekki er ekki allt með feldu. En þið sem hafið ekki séð myndina munuð sjá hvað ég meina þegar þið skellið þessari ómissandi snilld í tækið.
Ég er handviss um að það var pæling Scorsese þegar hann valdi lagið og að hann hafi verið fullmeðvitaður um hvað hann vildi fá úr notkun lagsins. Brillerandi lúmskt og algjörlega ógleymanlegt, eitt allra besta lagaval í kvikmynd hvort sem það virðist viðeigandi eða óviðeigandi.
1. End Of Evangelion – ‘Komm Susser Tod.’
Út af einhverri ástæðu er ég ‘anime týpan’ meðal stjórnenda síðunnar og það kemur hinum pennum síðunnar eflaust ekki á óvart að japönsk teiknimynd hreppir sæti á þessum lista. En engin sena hefur ruglað jafn mikið í undirmeðvitund minni eins og gríðarlega depurðarfullnæging myndarinnar End Of Evangelion. Senan er sjúklega listræn, sjúk á geði, og sjúk í anda, þá er einungis hægt að gera hana óþægilegri en samt svo grípandi með sérstaklega óviðeigandi lagavali.
Að þessu sinni er lagavalið nánast þrískipt hvað varðar ástæðuna fyrir notkun þess. Lagið er spilað þegar allt er farið í bál og brand og það passar sérkennilega vel í klippingu senunnar þó að lagið sé ákaflega kátlegt í hljómi og minnir dáldið á súrealíska samblöndu af Hey Jude og A Whiter Shade Of Pale. Þá virkar nógu óþægilegt íbland við ógnvekjandi myndræna mál senunnar en síðan verður það verra þegar maður heyrir textann sem fjallar um tilvonandi sjálfsmorð hjá einstakling sem hefur gefið upp alla lífsvon. Ekki einungis er notkunin á laginu óþægileg heldur einnig samblandan af laginu og texta þess. Þreföld skrúfa í heilabúið.
Einnig finnst mér þetta vera eitt af örfáu skiptum sem mér líður eins og ég sé að horfa á góða samblöndu milli þess að vera kvikmynd og stórkostlegt tónlistarmyndband, því ekkert virðist passa en samt virðist allt falla saman sérkennilega vel (eins og t.d. Little Talks myndbandi hljómsveitarinnar Of Monsters And Men). Senan er bæði ógnvekjandi, óskiljanlega grípandi og gullfalleg, rétt eins og lagið. Fáar senur hafa setið jafn lengi í mér og þessi svakalegi heilauppskurður. Vel gert!
Jæja, kæru lesendur. Munið þið eftir meira sláandi (ó)viðeigandi lagavali og hvert er ykkar uppáhalds (ó)viðeigandi lagaval?