The Hangover 2 á toppnum, og Kung Fu Panda 2 númer 2

The Hangover Part ll þénaði 86,5 milljónir Bandaríkjadala núna fyrstu sýningarhelgi sína í Bandaríkjunum, sem er nær tvöfalt meira en fyrsta myndin, The Hangover, þénaði þegar hún var frumsýnd árið 2009.
Myndin hefur alls þénað um 120 milljónir dala frá því hún var frumsýnd sl. fimmtudag og samkvæmt AP fréttastofunni er henni spáð 140 milljónum dollara tekjum alls þegar dagurinn í dag er að kveldi kominn, en þessa helgina er svokölluð Memorial Day weekend, með fríi í dag, mánudag.
Fyrri myndin náði 100 milljóna dala takmarkinu ekki fyrr en á annarri sýningarhelgi, en sú mynd endaði með að þéna 277 milljónir Bandaríkjadala í Bandaríkjunum.

Í The Hangover Part II eru þeir mættir aftur leikararnir Bradley Cooper, Ed Helms og Zach Galifianakis og vakna nú skelþunnir í Bangkok í stað Las Vegas eins og í fyrri myndinni.
Utan Bandaríkjanna þénaði myndin 59 milljónir dala í 40 löndum, þar á meðal á Íslandi þar sem hún er á toppi aðsóknarlistans með rúmar 11 milljónir íslenskra króna í tekjur.

Teiknimyndin Kung Fu Panda 2 frá Dreamworks fyrirtækinu, var einnig frumsýnd um helgina í Bandaríkjunum, og þénaði 48 milljónir dala, sem er minna en fyrri myndin þénaði fyrir þremur árum síðan, en tekjur hennar námu 60,2 milljónum dala á frumsýningarhelginni.
Áætlað er að Kung Fu Panda 2 endi með 68,2 milljónir dala í kassanum eftir þessa löngu helgi.
Í myndinni tala þau Jack Black og Angelina Jolie fyrir teiknimyndapersónurnar meðal annars.
Kung fu Panda 2 þénaði 57 milljónir dala í 11 löndum utan Bandaríkjanna, þar á meðal 18,5 milljónir dala í Kína, þar sem sögusvið myndarinnar er.
Í þriðja sæti aðsóknarlistans er svo Pirates of the Caribbean: On Stranger Tides með 39,3 milljónir, en talið er að myndin verið búin að þéna alls 163,6 milljónir dala áður en helgin er á enda.
Utan Bandaríkjanna hefur myndin þénað meira en hálfan milljarð Bandaríkjadala, og alls þá um 646,5 milljónir dala.

Cannes „Gullpálmamynd“ Terrence Malick’s, The Tree of Life, var sýnd í fjórum bíóhúsum í New York City og Los Angeles, en fékk mjög góða aðsókn, og þénaði 352.320 dali. Það þýðir 88.080 dali á bíó, miðað við 23.923 á hvert bíó þar sem Hangover var sýnd, en hún var frumnsýnd samtímis í 3.615 bíóhúsum.

Í The Tree of Life leika Brad Pitt, Sean Penn og Jessica Chastain en myndin fjallar um uppkominn son, þar sem hann lítur til baka yfir líf sitt. Bíóhúsum sem sýna myndina verður fjölgað um næstu helgi samkvæmt frétt AP.