Aðalleikarar
Leikstjórn
Handrit
Sú fyrri er betri, en það munar ekki miklu
Mikið vildi ég að fleiri framhaldsmyndir myndu gera það sama og þessi. Kung Fu Panda 2 er ekki metnaðarlaust afrit af forvera sínum heldur dekkri, hraðari og vafalaust tilfinningaríkari mynd sem hefur sama anda en gerir einnig fullt af nýjum hlutum. Aðstandendur sátu greinilega ekki auðum og lögðu almennilega vinnu í það sem þeir voru að gera, á meðan flestir framleiðendur sitja bara úti og tana sig á meðan þeir bíða eftir peningaflóðinu. Ef sagan væri örlítið breiðari þá væri þessi annaðhvort jafn góð eða betri en sú fyrsta. Ferskleikinn sem einkenndi þá mynd er ekki alveg til staðar heldur, en þó svo að nr. 2 sé aðeins síðri er hún samt sem áður þrælskemmtileg, frábærlega unnin og reglulega fyndin.
Ég er svolítill aðdáandi fyrstu myndarinnar og tel hana vera eina af bestu Dreamworks-teiknimyndunum þrátt fyrir sína galla. Eins og það sé ekki hellingur sem gerir hana góða þá fíla ég hana einnig útaf því að hún fer ekki eftir þessari dæmigerðu Dreamworks-uppskrift; Tilvísanir í poppkúltur eru fáar sem engar og tilgangslaust tónlistarnúmer í lokin er blessunarlega fjarverandi. Þær myndir fyrirtækisins sem eru lausar við slíkt gæti ég talið upp með annarri hendi, og Kung Fu Panda 2 er m.a.s. ein af þeim.
Það er sumt sem þessi mynd gerir enn betur en sú fyrri, og stundum er hún svo myrk í tón að maður dáist bara enn meira að hugrekki hennar. Ákvörðunin að kafa aðeins út í baksögu aðalpersónunnar, Po, var algjörlega sú rétta. Myndin hefði hoppað upp um nokkur gæðastig ef hún hefði líka varpað smá meira ljósi á gömlu aukapersónurnar (The Furious Five), þar sem þær voru einnig heldur útundan í seinustu mynd (Jackie Chan og Lucy Liu fá t.d. ekki nema örfáar setningar – í báðum myndunum), en það verður sennilega að bíða þangað til næst. Allavega, sá bakgrunnur sem fylgir Po er aðall sögunnar hérna og keyrir hana á þá staði sem eru dálítið skuggalegir. Og þegar við loksins fáum þá baksögu er merkilega erfitt að halda kellingatárunum aftur því hún er lúmskt sterk, næstum því á pari með bestu senum Pixar-mynda. En bara næstum því! Bláendirinn skemmir samt dálítið höggið sem baksagan gefur manni.
Myndin er samt aðeins of efnislega þunn og þess vegna á ég erfitt með að setja hana á sama stall og nr. 1. Söguþráðurinn hefði léttilega dugað í 30-40 mínútna stuttmynd og maður finnur fyrir því að hasar sé oft notaður til að toga lengdartímann svo myndin nái fullri lengd. Sú fyrri hafði ekki þetta vandamál því þar leið manni eins og það væri ákveðin saga í þróun allan tímann. Þessar hasar- og slagsmálasenur verða samt aldrei leiðinlegar. Þær eru aulalega flottar; ávallt hraðskreiðar, oft hugmyndaríkar og óaðfinnanlega skipulagðar. Grafík og litanotkun er með ólíkindum og “kvikmyndatakan” svokallaða er lífleg og með fulla þátttöku í öllu sem er að gerast. Kameruhreyfingar í teiknimyndum eru augljóslega mun frjálslegri og það er alltaf gaman að sjá þegar þær eru nýttar til fulls eins og hérna. Jafnvel þeir sem eru ekkert sérlega hrifnir af báðum myndunum munu slefa yfir útlitinu á þeim.
Raddsetning aðalpersónanna er áfram skotheld. Jack Black er klárlega skemmtilegri og fyndnari þegar hann lánar rödd sína í staðinn fyrir að slæpast um með hamagang í sorpmyndum eins og Gulliver's Travels. Ásamt tónlistarnördanum sem hann lék í High Fidelity er Po sennilega besta hlutverkið á öllum ferlinum hans. Ég er samt orðinn dálítið þreyttur á þessum sífellt ofnotuðu matar- og fitubröndurum (hvort sem þeir hafi verið partur af handritinu eða spunanum hjá Black er ég ekki klár á), en kannski ég kenni bara myndinni Mall Cop um að hafa drepið svoleiðis húmor fyrir mér. Nýju leikararnir koma annars allir vel út. Illmenni sögunnar fannst mér reyndar eftirminnilega óspennandi og klisjukennt (sérstaklega í samanburði við Tai Lung), en Gary Oldman tekst að gera páfugl eins grimman og athyglisverðan og hægt er að gera slíkan. Annars er hryllilega erfitt að toppa röddina hans Ians McShane úr fyrstu, eða flóttasenuna hans ef út í það er farið.
Lokasena myndarinnar virðist gefa til kynna að það sé meiri saga til að segja frá (svona næstum því "sequel bait" en samt ekki alveg). Svoleiðis endar fara oft í taugarnar á mér en eftir að hafa skemmt mér eins og feitur krakki í nammibaði yfir báðum Pöndumyndunum myndi ég glaðlega þiggja aðra, eða í það minnsta taka sénsinn á henni. Kung Fu Panda 2 er ekki ein af þessum barnapíum sem á bara að skemmta þeim yngstu á meðan þú finnir þér eitthvað betra að gera. Þetta er mynd sem er ætluð öllum, og miðað við tóninn á henni er alls ekkert ólíklegt að hinir eldri meti hana á allt öðru stigi heldur en börnin gera. En þeir sem voru hæstánægðir með hina munu að minnsta kosti ekki sjá eftir aurnum sem fer í þessa. Það er klárt mál.
7/10
Mikið vildi ég að fleiri framhaldsmyndir myndu gera það sama og þessi. Kung Fu Panda 2 er ekki metnaðarlaust afrit af forvera sínum heldur dekkri, hraðari og vafalaust tilfinningaríkari mynd sem hefur sama anda en gerir einnig fullt af nýjum hlutum. Aðstandendur sátu greinilega ekki auðum og lögðu almennilega vinnu í það sem þeir voru að gera, á meðan flestir framleiðendur sitja bara úti og tana sig á meðan þeir bíða eftir peningaflóðinu. Ef sagan væri örlítið breiðari þá væri þessi annaðhvort jafn góð eða betri en sú fyrsta. Ferskleikinn sem einkenndi þá mynd er ekki alveg til staðar heldur, en þó svo að nr. 2 sé aðeins síðri er hún samt sem áður þrælskemmtileg, frábærlega unnin og reglulega fyndin.
Ég er svolítill aðdáandi fyrstu myndarinnar og tel hana vera eina af bestu Dreamworks-teiknimyndunum þrátt fyrir sína galla. Eins og það sé ekki hellingur sem gerir hana góða þá fíla ég hana einnig útaf því að hún fer ekki eftir þessari dæmigerðu Dreamworks-uppskrift; Tilvísanir í poppkúltur eru fáar sem engar og tilgangslaust tónlistarnúmer í lokin er blessunarlega fjarverandi. Þær myndir fyrirtækisins sem eru lausar við slíkt gæti ég talið upp með annarri hendi, og Kung Fu Panda 2 er m.a.s. ein af þeim.
Það er sumt sem þessi mynd gerir enn betur en sú fyrri, og stundum er hún svo myrk í tón að maður dáist bara enn meira að hugrekki hennar. Ákvörðunin að kafa aðeins út í baksögu aðalpersónunnar, Po, var algjörlega sú rétta. Myndin hefði hoppað upp um nokkur gæðastig ef hún hefði líka varpað smá meira ljósi á gömlu aukapersónurnar (The Furious Five), þar sem þær voru einnig heldur útundan í seinustu mynd (Jackie Chan og Lucy Liu fá t.d. ekki nema örfáar setningar – í báðum myndunum), en það verður sennilega að bíða þangað til næst. Allavega, sá bakgrunnur sem fylgir Po er aðall sögunnar hérna og keyrir hana á þá staði sem eru dálítið skuggalegir. Og þegar við loksins fáum þá baksögu er merkilega erfitt að halda kellingatárunum aftur því hún er lúmskt sterk, næstum því á pari með bestu senum Pixar-mynda. En bara næstum því! Bláendirinn skemmir samt dálítið höggið sem baksagan gefur manni.
Myndin er samt aðeins of efnislega þunn og þess vegna á ég erfitt með að setja hana á sama stall og nr. 1. Söguþráðurinn hefði léttilega dugað í 30-40 mínútna stuttmynd og maður finnur fyrir því að hasar sé oft notaður til að toga lengdartímann svo myndin nái fullri lengd. Sú fyrri hafði ekki þetta vandamál því þar leið manni eins og það væri ákveðin saga í þróun allan tímann. Þessar hasar- og slagsmálasenur verða samt aldrei leiðinlegar. Þær eru aulalega flottar; ávallt hraðskreiðar, oft hugmyndaríkar og óaðfinnanlega skipulagðar. Grafík og litanotkun er með ólíkindum og “kvikmyndatakan” svokallaða er lífleg og með fulla þátttöku í öllu sem er að gerast. Kameruhreyfingar í teiknimyndum eru augljóslega mun frjálslegri og það er alltaf gaman að sjá þegar þær eru nýttar til fulls eins og hérna. Jafnvel þeir sem eru ekkert sérlega hrifnir af báðum myndunum munu slefa yfir útlitinu á þeim.
Raddsetning aðalpersónanna er áfram skotheld. Jack Black er klárlega skemmtilegri og fyndnari þegar hann lánar rödd sína í staðinn fyrir að slæpast um með hamagang í sorpmyndum eins og Gulliver's Travels. Ásamt tónlistarnördanum sem hann lék í High Fidelity er Po sennilega besta hlutverkið á öllum ferlinum hans. Ég er samt orðinn dálítið þreyttur á þessum sífellt ofnotuðu matar- og fitubröndurum (hvort sem þeir hafi verið partur af handritinu eða spunanum hjá Black er ég ekki klár á), en kannski ég kenni bara myndinni Mall Cop um að hafa drepið svoleiðis húmor fyrir mér. Nýju leikararnir koma annars allir vel út. Illmenni sögunnar fannst mér reyndar eftirminnilega óspennandi og klisjukennt (sérstaklega í samanburði við Tai Lung), en Gary Oldman tekst að gera páfugl eins grimman og athyglisverðan og hægt er að gera slíkan. Annars er hryllilega erfitt að toppa röddina hans Ians McShane úr fyrstu, eða flóttasenuna hans ef út í það er farið.
Lokasena myndarinnar virðist gefa til kynna að það sé meiri saga til að segja frá (svona næstum því "sequel bait" en samt ekki alveg). Svoleiðis endar fara oft í taugarnar á mér en eftir að hafa skemmt mér eins og feitur krakki í nammibaði yfir báðum Pöndumyndunum myndi ég glaðlega þiggja aðra, eða í það minnsta taka sénsinn á henni. Kung Fu Panda 2 er ekki ein af þessum barnapíum sem á bara að skemmta þeim yngstu á meðan þú finnir þér eitthvað betra að gera. Þetta er mynd sem er ætluð öllum, og miðað við tóninn á henni er alls ekkert ólíklegt að hinir eldri meti hana á allt öðru stigi heldur en börnin gera. En þeir sem voru hæstánægðir með hina munu að minnsta kosti ekki sjá eftir aurnum sem fer í þessa. Það er klárt mál.
7/10
Um myndina
Leikstjórn
Handrit
Framleiðandi
Paramount Studios/Dreamworks
Vefsíða:
Aldur USA:
PG
Frumsýnd á Íslandi:
2. júní 2011
Útgefin:
15. desember 2011
Bluray:
15. desember 2011