The Dark Tower verður gerð

þrátt fyrir að stóru áform Ron Howards og framleiðenda Dark Tower-myndanna virtust á bak og burt, hefur verkefninu verið veitt nýtt líf. Planið var að gera þríleik kvikmynda og tvær mini-seríur byggðar á stærstu bókaseríu Stephen Kings. Bækurnar fjalla um persónuna Roland Deschain, kúrekalegan harðjaxl í heimi auðnar og myrkrar fantasíu, sem svífst einskis til að komast í hinn myrka turn, eins konar miðpunkt allra alheima. Á leiðinni kynnist hann föruneyti sínu og er serían einstök blanda af fantasíu, vestrum, hrylling ásamt mörgum verkum Stephen Kings og hefur hann sjálfur lýst því yfir að þetta sé meistarastykkið sitt. Lengi hafa aðdáendur bókanna beðið eftir einhvers konar mynduðu efni byggðu á seríunni og nú er þann draumur búinn að taka stór skref í átt raunveruleikans.

Brian Grazer, einn framleiðanda myndanna ásamt Ron Howard og Akiva Goldsman, staðfesti að verkefnið mun komast í framleiðslu þökk sé nýrri lausn á peningavandanum sem sparar framleiðslunni heilar fjörutíu og fimm milljónir dollara: „Við höfum fundið leið til að skera út 45 milljónir dollara án þess að breyta stærðinni og veita [The Dark Tower] góðan endi. Í 140 milljóna uppkastinu voru sögulokin ekki jafn fullnægjandi.“

Bækurnar hafa hlotið mjög blendnar viðtökur lesenda og gagnrýnenda -jafnvel undirritaður hefur lesið fyrstu þrjár án þess að móta mjög fullnægjandi álit, en þær eru vel þess virði að kíkja í- og hefur lengi verið deilt um hvort æskilegt sé að gera kvikmyndir um ferð Rolands og föruneytisins. Þó er gott að vita að verkefnið sé í góðum höndum og að það komist alla leið. Javier Bardem er ennþá valkostur framleiðanda sem Roland Deschain og verður spennandi að sjá hvað verður úr þessu metnaðarfulla verkefni.