Eftirfarandi er fréttatilkynning frá SAMbíóunum
Það hefur vart farið fram hjá neinum að kvikmyndin um
Leðurblökumanninn, The Dark Knight, hefur verið sýnd á Íslandi við afbragðs
undirtektir jafnt gagnrýnenda sem annarra bíógesta. Strax á fyrstu helgi náði
myndin að slá met með því að vera stærsta opnun allra tíma með forsýningum
meðtöldum og síðan þá hafa landsmenn haldið áfram að flykkjast að sjá Blaka í
sígildri baráttu góðs og ills við Jókerinn og félaga. Myndin hefur á meðan gert
hreint ótrúlega hluti vestanhafs en þar er hún orðin næst stærsta mynd allra
tíma, aðeins stórslysamyndin Titanic er ofar á listanum.
Enn eitt metið bættist svo í hópinn um helgina þegar myndin
varð stærsta mynd Warner Brothers allra tíma á Íslandi og sló þar með upphafsmynd
Harry Potter seríunnar úr toppsætinu frá árinu 2001. Síðan hafa komið margar
stórar myndir frá þessum virta framleiðanda í Hollywood eins og The Matrix, 300, Superman Returns og hinar Harry Potter myndirnar fjórar, það var þó ekki fyrr en
Christian Bale klæddist Batman búningnum í annað sinnið sem metið féll.
Myndin um dimma riddara Gotham borgar í dag er í þriðja sæti
yfir bestu myndir allra tíma samkvæmt hinum virta vef IMDB sem verður að
teljast góður mælikvarði á gæði myndarinnar. Rætt um að Heath Ledger verði ekki
aðeins tilnefndur heldur hljóti einnig Óskarsverðlaunin fyrir tímamótaleik í
hlutverki Jókersins og segja bjartsýnustu menn að myndin hljóti allt að tólf
tilnefningar m.a. sem besta mynd.
Myndin er enn í sýningum í Sambíóunum Álfabakka og Akureyri,
Laugarásbíó, Háskólabíó og verður á næstu dögum sýnd í kvikmyndahúsinu á
Ísafirði.
Tengdar fréttir

