Syngjandi sækó

 

Fyrir skemmstu var tilkynnt að hin gríðarumdeilda skáldsaga American Psycho eftir Bret Easton Ellis væri á leiðinni á leiksvið í London síðar á árinu og það í formi söngleiks. Bókin kom út árið 1991 og olli í raun usla áður en hún kom út formlega, vegna ofbeldisfullra kaflabrota sem höfðu lekið til gagnrýnenda. Bókin hlaut strax svo alræmdan orðstír að í Ástralíu var hún til að mynda einungis seld til átján ára og eldri og þar að auki vafin í plast. Væntanlegur söngleikur er skrifaður af leikritaskáldinu Roberto Aguirre-Sacasa, sem er einna helst þekktur fyrir vinnu sína við bandarísku sjónvarpsþættina Glee, og tónlistarmaðurinn Duncan Sheik hefur verið ráðinn til að sjá um lagasmíðarnar. Hugmyndin að söngleikjaútgáfu af bók Ellis ku hafa verið í loftinu síðan 2008, þrátt fyrir að hún sé nú fyrst að verða að veruleika.

Skáldsagan alræmda segir frá uppanum Patrick Bateman sem vinnur á Wall Street á daginn og myrðir fólk á hrottalegan hátt á næturnar. Bókin er harðsvíruð ádeila á yfirborðslegt og peningatryllt neyslusamfélag níunda áratugarins og hefur ekki misst bitið á þeim rúmu tveimur áratugum sem liðið hafa síðan. Textinn er skitsófrenískur með meiru, í takt við sjúklega tvískipta tilveru aðalpersónunnar – lesandinn fær hvern kaflann á eftir öðrum með þrotlausum upptalningum og nákvæmum lýsingum á öllum fatnaði, skartgripum, klúbbum, matseðlum og öðrum tískufyrirbærum sem skipta aðalpersónurnar máli, auk kafla sem útskýra viðskiptalíf Wall Street og ítarlegar túlkanir Batemans á poppkúltúr samtímans, og þá sérstaklega tónlist – blaðsíða eftir blaðsíðu af greiningum á því hvers vegna Phil Collins eða Huey Lewis and the News séu ótvíræðir tónlistarsnillingar – svo nokkur megindæmi um viðfangsefni sögunnar séu nefnd. Allt er þetta skrifað á kaldranalegan og fjarlægan hátt sem hjakkar endalaust í yfirborðslegum lýsingum á daglegu lífi aðalpersónunnar, en þessi fjarrænu stílbrögð halda áfram yfir í þá hrottafengnu kafla sem lýsa morðum og pyntingum á álíka nákvæman og kaldlyndan máta. Í gegnum þetta undarlega samspil hins hversdagslega og hins hrottalega er lesandinn sogaður inn í hugarheim aðalpersónunnar á einkar óþægilegan hátt, áhrif sem kvikmyndaaðlöguninni tókst ekki að leika eftir og tilvonandi söngleikur mun væntanlega ekki heldur ná fram.

Ofbeldiskaflarnir í bókinni eru ekki ýkja margir og í raun í afar litlu hlutfalli miðað við heildarlengd verksins, en þeir eru svo ítarlegir og grafískir að erfitt er að pína sig í gegnum lestur á þeim og sum atriðin hverfa seint, ef nokkurn tímann, úr minni. Eftir að hafa horft á heilu haugana af hryllingsmyndum í gegnum árin og séð svo mikið af splatter að ég varð ónæmur fyrir því held ég strax á unglingsárum, þá náði bók Ellis að hrista svo duglega upp í mér að ég mun líklega aldrei gleyma áhrifunum og þurfti reglulega að taka mér hlé á lestri. Skiljanlega var ekki hægt að ná fram sömu áhrifum með kvikmyndaaðlögun, þar sem ofbeldisatriðin eru svo yfirgengileg að jafnvel hörðustu splatterleikstjórar kæmust ekki með tærnar þar sem Bateman hefur hælana. En það er ekki einungis subbuskapur sem gerir ofbeldið í American Psycho svo óbærilegt, heldur fyrst og fremst hin kuldalega nálgun sögumannsins Batemans, sem lýsir limlestingum jafneðlilega og hversdagslega eins og hann myndi segja lesendum frá því sem hann fékk sér í morgunmat eða hvers kyns hárgel hann hafi keypt sér síðast. Þar er raunverulegur viðbjóður bókarinnar falinn og sá tónn skilaði sér ekki sérstaklega vel yfir í kvikmyndaaðlögunina frá 2000 í leikstjórn Mary Harron.

Kvikmyndin tónaði hrottaskapinn niður allsvakalega og gerði ofbeldið „hefðbundið“, ef svo má að orði komast, eða í takt við það sem gengur og gerist almennt í morðingjamyndum. Með því að minnka áhersluna á ofbeldið varð til ákveðið ójafnvægi í kvikmyndinni sem dregur úr áhrifum samspilsins á milli þess hversdagslega og þess hrottalega sem bókin náði fram með svo eftirminnilegum hætti. En kvikmyndin var alls ekki slæm, þótt hún færi aðrar leiðir en skáldsagan, og hún er sérstaklega áhrifamikil fyrir tvennar sakir. Annars vegar tókst Harron að draga fram gráglettuna í sögunni, sem er aldrei fjarri lagi, og lagði í raun svo mikla áherslu á svartan húmor að myndin kemst nær því að vera gamanmynd en hryllingsmynd (í stað þess að vera bæði, eða hvorugt, samtímis). Skáldsagan er kómísk, þótt hún sé hrottaleg, og þegar deilurnar um hana stóðu sem hæst vantaði oft að taka þá hlið með í umræðuna. Ellis hefur sjálfur minnst á að framsetning Harrons á sögunni sem nokkurs konar svartri kómedíu hafi glatt hann, einmitt vegna þess að með gamansamri kvikmynd hafi ákveðið jafnvægi komist á innan almannavitundar um bókina: hún var ekki bara marklaus eða sadískur óður til ofbeldis, heldur mjög vandlega smíðuð satíra.

Hin ástæðan fyrir mikilvægi kvikmyndarinnar er aðalleikarinn Christian Bale í hlutverki Patricks Bateman, en varla er hægt að hugsa sér betri mann í hlutverkið, og nærri ómögulegt að lesa bókina nú á dögum án þess að hafa Bale í huga, þekki maður á annað borð til myndarinnar. Snilldarleikur Bale, sem nær fullkomnu jafnvægi á milli algjörrar geðveiki, sjarma og hversdagsleika, verður enn merkilegri sé hugsað til þess að umboðsmaður hans og fleiri sem stóðu honum nærri mældu eindregið gegn því að Bale tæki að sér hlutverkið, þar sem mikill ótti stóð af kvikmyndinni sökum þess hvað bókin var umdeild og Bale var beinlínis varaður við því að eyðileggja ekki fyrir sér ferilinn með því að koma nærri efninu. Leonardo DiCaprio hafði þegar hafnað hlutverkinu (blessunarlega?) einmitt af þeim ástæðum.

Ef kvikmyndin fjarlægðist bókina hvað varðar hrottalegt ofbeldið og hið sérstaka samspil ógleði og húmors, á milli banal hversdagsleika og hrottalegra líkamspyntinga, þá hlýtur söngleikjaútgáfan að taka skrefið enn fjær upprunalega textanum. Sem fyrr segir er tónlist stór hluti af bókinni, en aðalpersónan eyðir töluverðu púðri í að fara í gegnum svo nákvæma útlistun á sínum uppáhaldstónlistarmönnum og plötum þeirra að það jaðrar við að verða þreytandi á köflum. Hvernig tónlistin í söngleiknum verður á eftir að koma í ljós, en væntanlega mun hún sækja í brunn þeirra listamanna sem Bateman sjálfur ídolíserar. Enn hefur ekki verið tilkynnt um leikara sem mun taka að sér aðalhlutverkið, en ljóst er að hann mun þurfa að standast samanburð við einn besta leikara samtímans, sem skilaði af sér einu eftirminnilegasta hlutverki síðasta áratugar. Nema auðvitað að Bale slái til og haldi kyndlinum áfram á lofti, en því miður hefur hann látið út úr sér í viðtali að hann vilji aldrei leika í söngleik.

Sýningin mun opna þriðja desember þessa árs í Almeida leikhúsinu í London og standa til 25. janúar 2014. Spennandi verður að vita hvernig söguefnið mun skila sér í þessu formi, en hugmyndin um söngleik byggðan á þessari bók kom undirrituðum að minnsta kosti hressilega á óvart. Hryllingur og ofbeldi sem grunnur að vinsælum söngleikjum er auðvitað engin nýbreytni – Litla Hryllingsbúðin, Rocky Horror og Sweeney Todd eru allt dæmi um það – en umbreyting einnar erfiðustu bókar sem ég hef lesið yfir í poppað söngleikjaform fær mig til að halda að afraksturinn verði svo fjarlægur upprunalegu stemningunni að nær verði að tala um spin-off heldur en aðlögun – en það á auðvitað eftir að koma í ljós í desember.