Það er ekki nóg með að snillingurinn og Óskarstilnefningahafinn Sylvester Stallone leikstýri, framleiði, skrifi handrit að og leiki í bíómyndum, heldur er hann myndlistarmaður einnig til fjölda ára.
Á morgun laugardaginn 19. febrúar opnar sýning á verkum leikarans í Gallerí Gmurzynska í St. Moritz í Sviss, en um er að ræða yfirlitssýningu á verkum hans. Sýningin verður opin til 15. mars og eru aðdáendur hans sem eru á ferðalagi í Sviss, hvattir til að láta sýninguna ekki framhjá sér fara.
Á sýningunni verður gefið gott yfirlit yfir mismunandi tímabil í ferli Stallone sem myndlistarmanns, en þar á meðal eru sjálfsmyndir hans.
Myndir Stallone eru, að því er segir í frétt á Artdaily.org, í stíl við kvikmyndir hans; litríkar, tjáningarríkar og óhlutbundnar.
Samhliða sýningunni verður gefin út sýningarskrá sem þungavigtarmenn innan myndlistargeirans skrifa í, þeir Anthony Haden-Guest ( sem skrifar um myndlist fyrir New York Times og London Times ) og Donald Kuspit, sem er einn virtasti myndlistargagnrýnandi Bandaríkjanna.
Samhliða sýningunni í Gallerí Gmurzynska, þá verða verk eftir Stallone einnig til sýnis í ríkislistasafninu í Sankti Pétursborg í Rússlandi.
Samkvæmt fréttinni á Artdaily.org þá er forsagan að sýningu Stallone í Sviss sú að hann heimsótti galleríið í september 2008 þegar kvikmyndahátíðin í Zurich stóð yfir. Annar eigandi gallerísins, Rastorfer, varð ekkert sérstaklega undrandi að sjá Stallone í galleríinu, enda leikarinn þekktur listaverkasafnari. Það sem kom honum þó á óvart var að Stallone hafði sjálfur verið að mála í mörg ár sjálfur. Eftir að Rastorfer hafði fengið að skoða nokkur verka leikarans, þá fæddist hugmyndin að sýningunni. Fljótlega þá heimsótti Rastorfer Stallone í Los Angeles, og sýndi svo 8 myndir eftir hann á foropnun á hinni rómuðu listamessu Art Basel Miami Beach í desember 2009.
Stallone byrjaði að mála þegar hann var unglingur að aldri, og merkti þá myndir sínar sem Mike Stallone. Af fjárhagsástæðum þá vann hann fyrst sem rithöfundur þar til hann byrjaði að leika í kvikmyndum. Árið 1976 sló hann í gegn með Rocky og byrjaði þá aftur að mála og hefur ekki hætt síðan.