Sully, nýjasta mynd leikstjórans Clint Eastwood, með Tom Hanks í titilhlutverkinu, hefur fengið frumsýningardag. Myndin, sem er ævisöguleg og fjallar um flugstjórann Chesley „Sully“ Sullenberger, verður frumsýnd 9. september 2016.
Í myndinni verður fjallað um hið einstaka afrek þegar flugvélin með Sullenberger við stýrið, missti afl, eftir að hafa fengið fugla í hreyflana, árið 2009 nokkrum mínútum eftir flugtak frá LaGuardia flugvellinum. Án hreyfla og á fullri ferð niður, þá náði Sullenberger með ótrúlegum hætti að framkvæma neyðarlendingu á Hudson ánni í New York, með þeim afleðingum að allir um borð komust lífs af.
Sully þótti sína mikla yfirvegun og fagmennsku meðan á þessu stóð, og varð þjóðhetja í kjölfarið.
Myndin er byggð á sjálfsævisögu flugstjórans: Highest Duty: My Search For What Really Matters, sem hann skrifaði með Jeffrey Zaslow.
Aaron Eckhart, Laura Linney, Holt McCallany, Wayne Bastrup, Jamey Sheridan og Jerry Ferrara leika einnig í myndinni.