Stálhellar Asimovs verða kvikmynd


20th Century Fox hefur ákveðið að láta reyna á aðlögun á hinni klassísku Caves of Steel eftir Isaac Asimov. Myndir eftir bókum Asimovs hafa hingað til verið lauslegar aðlaganir, og ekki reynst aðdáendum hans sérstaklega vel (Bicentennial Man; I, Robot. Því taka margir þessum fréttum með efa.

Fox hefur fengið þá Henry Hobson til að leikstýra og John Scott 3 til að sjá um handritið. Þeir eru nú að vinna í fyrstu mynd sinni í sömu hlutverkum, sem er lowbudget zombie mynd sem kallast Maggie. Sú mynd fjallar um unga stúlku sem er bitin af Zombie – og fylgir henni og fjölskyldu hennar í þá 6 mánuði sem tekur til þess að breytast í lifandi dauðann.

Jonh Scott 3 ætti annars að ná vísindunum rétt í vísindaskáldskapnum, því þegar hann er ekki að skrifa handrit, vinnur hann hjá NASA við að forrita Röntgengeisla gervihnött þeirra, sem tekur myndir af fyrirbrigðum lengst útí geimi. Hvernig hann hefur tíma fyrir tvo ferla veit ég ekki.

Stálhellar kom upphaflega út árið 1953 og hefur seinna verið þýdd á íslensku. Það vill svo skemmtilega til að ég er nýbúinn að lesa þessa bók og þarf því aldrei þessu vant ekki bara að stela lýsingu hennar af Wikipedia. Asimov skrifaði þessa bók til þess að sanna það að hægt væri að vísindaskáldskapur væri ekki sérgrein í bókmenntum, heldur bragð sem hægt væri að nota í hvaða bókmenntagrein sem er. Stálhellar er því í rauninni bara glæpasaga, bókin fylgir Elijah Bailey, lögreglumanni af gamla skólanum sem vantreystir vélmennum, sem er falið að rannsaka morð með háþróuðu vélmenni, R. Daneel Olivav (R. fyrir Robot). Ef að þetta hljómar svipað og I, Robot myndin… þá, já þetta er mjög svipað. Nafn bókarinnar er tilkomið þannig að í framtíðinni sem myndin lýsir eru borgir jarðarinnar allar undir stálþaki þar sem aldrei sést til himins. Hinsvegar eru Geimverjar – nýlendubúar frá jörðinni, sendir til annarra pláneta, miklu lengra þróaðir, og frá þeim kemur hin vandaða vélmennatækni.

Fyrir nokkrum árum hefði það ekki hljómað vel að Fox væri að fara að höndla þetta, því þeim tókst á tímabili merkilega oft að klúðra svo tækifærum til að gera góðar kvikmyndir. En í sumar átti stúdíóið óvænt tvær bestu „sumarmyndirnar“, X-Men: First Class og Rise of the Planet of the Apes, þannig að ég hef öðlast aukna trú á þeim á ný. Og þessi bók gæti orðið að fínustu scifimynd, þrátt fyrir að vera næstum 60 ára gömul.