Martin Scorsese og Leonardo DiCaprio héldu toppsætinu aðra vikuna í röð um nýliðna
helgi í Bandaríkjunum, en Shutter Island stóð af sér komu tveggja nýrra mynda í
bíó, löggugrínsins Cop Out og spennutryllisins The Crazies.
Shutter
Island fékk rúmar 22 milljónir í kassann, sem eru meiri afföll en á öðrum
samstarfsmyndum DiCaprio og Scorsese til þessa, en þetta er þrátt fyrir það góð aðsókn
miðað við árstímann. Cop Out var rétt fyrir ofan The Crazies í öðru sætinu, með
18,5 milljónir á móti 16,5 milljónum, en það merkilega er að aðstandendur The
Crazies geta verið mun sáttari með helgina. Af hverju? Jú, af því að Kevin Smith og framleiðendur Cop Out gerðu sér vonir um 20+ milljónir á meðan allt
fyrir ofan 12 milljónir á The Crazies var álitið sigur. Svo kemur í ljós hvor
myndin mun endast betur í bíó.
Avatar gaf
lítið eftir í fjórða sætinu og náði 14 milljónum í kassann, sem þýðir að hún er
komin yfir 700 milljónir í Bandaríkjunum og er hvergi nærri hætt. Hún verður
líklega einhverjar 10 vikur í viðbót á topp-10 listanum.
Valentine’s Day rauf 100 milljóna múrinn með því að hala inn tæpar 10 milljónir um helgina,
sem var mjög svipað og Percy Jackson & the Olympians: The Lightning Thief, sem mun ekki verða næsti Harry
Potter (eins og einhverjir vonuðust til) ef eitthvað er að marka aðsóknina, en
hún stendur núna í 71 milljón. Til samanburðar tekur hver Potter-mynd um 250-300
milljónir í Bandaríkjunum.
Um næstu
helgi verður svo stórmynd Tim Burton, Alice in Wonderland, frumsýnd, en það
kæmi ekkert á óvart þó hún myndi slaga í 70 millur á frumsýningarhelginni. Hvað
haldið þið? Mun hún fljúga eða floppa?

