Scorsese og De Niro saman á ný

Í nýlegu viðtali við The Digital Spy staðfesti Martin Scorsese að næsta mynd sem hann ynni við yrði með stórleikaranum Robert De Niro. De Niro og Scorsese eru mestu félagar og hafa unnið saman við myndir á borð við Taxi Driver og Goodfellas.

Myndin sem þeir ganga í næst mun bera heitið The Irishman og verður byggð á bókinni I Heard You Paint Houses. Fjallar hún um Frank ‘The Irishman’ Sheeran sem er sagður hafa framið rúmlega 25 morð á vegum mafíunnar á sínum tíma. Scorsese, sem segist vona að framleiðsla hefjist á næsta ári, ætlar aldeilis ekki að spara stjörnurnar því hann er einnig í viðræðum við þá Al Pacino og Joe Pesci.

Handritshöfundurinn er ekki af verri taginu heldur er það Steve Zallian sem vinnur nú hörðum höndum við að skrifa myndina, en hann er hvað þekktastur fyrir að hafa skrifað Cape Fear og Gangs of New York, en Scorsese leikstýrði þeim báðum.

– Bjarki Dagur