Scorsese á fáar myndir eftir

Martin Scorsese hefur gefið í skyn að hann eigi bara eftir að leikstýra nokkrum myndum til viðbótar áður en hann leggst í helgan stein.

Scorsese-Thumb

Scorsese tjáði sig um þetta á Marrakech-kvikmyndahátíðinni þar sem nýjasta myndin hans The Wolf Of Wall Street er sýnd.

„Mig langar að gera helling af myndum en núna er ég orðinn 71 árs og get bara gert nokkrar í viðbót ef ég fæ að gera þær,“ sagði Scorsese, sem á að baki myndir á borð við Raging Bull, Taxi Driver, The Departed og Goodfellas.

„Ég sakna þess þegar mig langaði sífellt að gera tilraunir og búa til ólíkar myndir. Ég sakna þess tíma en hann er liðinn. Maður þarf að sinna ýmsum skyldum þegar maður eldist, þar á meðal fjölskyldunni.“

Scorsese bætti við að það væri sífellt erfiðara að búa til kvikmyndir, bæði líkamlega og hvað viðskiptahliðina varðar. Leonardo DiCaprio, sem leikur í The Wolf Of Wall Street, hafi hjálpað honum að takast á við það. „Ákafi hans og áhugi hafa virkilega haldið mér við efnið, í alls fimm myndum núna.“