Sambíóin hafa ákveðið að opna bíóhús sín á Akureyri og í Keflavík að nýju, en bíóin hafa verið lokuð vegna kórónuveirunnar. Þetta segir í tilkynningu frá bíóinu.
Boðið verður upp á nýja mynd í bíóunum um helgina, hasarmyndina Lucky Day. Myndin verður einnig sýnd í Sambíóunum Álfabakka.
Lucky Day fjallar um Red, sem er sérfræðingur í að brjótast inn í peningaskápa. Hann er nýsloppinn úr fangelsi, og reynir hvað hann getur að halda fjölskyldunni saman, á sama tíma og fortíðin bankar upp á í formi Luc, tryllts leigumorðingja, sem leitar hefnda vegna dauða bróður síns.
Með aðalhlutverk í myndinni fara Luke Bracey, Nina Dobrev, Clifton Collins Jr. og Crispin Glover.
Nolan þema
Í tilkynningunni segir einnig að Sambíóin ætli að bjóða upp á Christopher Nolan þema í júní í tilefni að því að nýjasta mynd leikstjórans, Tenet, er væntanleg í bíó 16. júlí. Sýndar verða Nolan kvikmyndirnar Batman Begins, The Dark Knight, The Dark Knight Rises, Inception, Interstellar og Dunkirk.