Róleg byrjun hjá boxhetjum

Sylvester Stallone og Robert De Niro eru tveir af þekktustu hnefaleikamönnum bíómyndasögunnar, en á áttunda og níunda áratug síðustu aldar léku þeir í myndum eins og Rocky og Raging Bull. Þeir leiða saman hesta sína á ný þessa helgina í Bandaríkjunum í nýrri boxgamanmynd, Grudge Match, en virðast ekki ætla að ná sama flugi og þegar þeir voru upp á sitt besta.

grudge_match

Myndin var frumsýnd á Jóladag og var samkvæmt Variety kvikmyndaritinu 11. vinsælasta myndin á föstudag með 2,4 milljónir Bandaríkjadala í tekjur og búist er við að hún nái að þéna 13 milljónir áður en dagurinn í dag er á enda.

Framleiðandinn Bill Gerber hjá Warner Bros hafði vonast eftir að Grudge Match næði að slá í gegn á sömu forsendum og Gran Torino með Clint Eastwood árið 2008, en sú mynd þénaði 270 milljónir dala í sýningum um allan heim.

Grudge Match kostaði 40 milljónir dala í framleiðslu, og hún á enn möguleika á að þéna upp í þann kostnað, sérstaklega ef hún nær að lokka eldri aðdáendur leikaranna í bíó.

Félagarnir hafa átt frekar dapurt ár í miðasölunni. Stallone myndin Bullet to the Head var flopp í byrjun ársins og þénaði aðeins 9,4 milljónir dala, en kostaði 55 milljónir dala.

The Big Wedding með De Niro og Diane Keaton þénaði 21 milljón dala en kostaði 35 milljónir dala í framleiðslu.

Leikararnir gætu þó rétt sinn hlut á næsta ári enda er von á Stallone stórmyndinni Expendables 3 í ágúst og De Niro er með nokkur járn í eldinum, eins og nýja gamanmynd með Reese Witherspoon, The Intern.

Grudge Match verður frumsýnd hér á landi 24. janúar nk.